Curiosity nær 10 kílómetra markinu

Mynd sem Curiosity tók í vesturátt af yfirborði Mars eftir …
Mynd sem Curiosity tók í vesturátt af yfirborði Mars eftir að jeppinn náði tíu kílómetra markinu. NASA/JPL-Caltech

Könnunarjeppinn Curiosity hefur verið á rúntinum á Mars frá árinu 2012. Hann fer ekki hratt yfir enda sinnir hann mikilvægum jarðfræðilegum rannsóknum á yfirborði reikistjörnunnar sem getur þar að auki verið hrjóstrugt. Jeppinn náði þeim áfanga í gær að hafa ekið tíu kílómetra á Mars.

Í frétt á vef Jet Propulsion Laboratory bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA kemur fram að Curiosity hafi náð þessum áfanga eftir að hafa ekið 63,5 metra á 957 Marsdegi leiðangursins, snemma á fimmtudag.

Hreyfanleikinn skiptir sköpum fyrir rannsóknirnar

Jeppinn forvitni er nú að rannsaka neðri hlíðar Sharp-fjalls til að rannsaka hvernig umhverfið þar þróaðist úr vötnum og ám í þá eyðimörk sem það er í dag. Næsti áfangastaður jeppans fyrir vísindarannsóknir nefnist Logan-skarð og er í um 200 metra fjarlægð til suðvesturs. Þessi hreyfigeta Curiosity er lykillinn að rannsóknum könnunarfarsins á Mars.

„Hreyfigeta jeppans hefur skipt sköpum vegna þess að hún gerir okkur kleift komast á bestu staðina til að rannsaka. Möguleikinn að komast að mismunandi hlutum berglaganna styður við vissu okkar um túlkanir á hverju svæði fyrir sig,“ segir John Grant frá loftferða- og geimsafninu í Washington D.C. en hann hefur séð um langtímaáætlanir fyrir Marsjeppann undanfarið.

Curiosity eyddi stærstum hluta fyrsta ársins á Mars í að rannsaka svæðið nærri lendingarstaðnum norður af Sharp-fjalli. Á meðal þess sem jeppinn varð vísari var að vísbendingar voru um ár og vötn í umhverfinu sem hefðu getað verið ákjósanleg híbýli fyrir örverulíf ef á Mars hefði einhvern tíman getað kviknað líf í fyrndinni.

Frétt um áfanga Curiosity á vef Jet Propulsion Laboratory NASA

Græna stjarnan sýnir núverandi staðsetningu Curiosity á Mars og hvíta …
Græna stjarnan sýnir núverandi staðsetningu Curiosity á Mars og hvíta línan leiðina sem könnunarjeppinn hefur ekið nýlega. NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert