Fyrsta HIV prófið á netinu

AFP

Bretar eru byrjaðir að selja HIV skyndipróf á neinu en samkvæmt því tekur aðeins 15 mínútur að fá niðurstöðu um hvort viðkomandi sé smitaður af HIV eður ei. Aðstandendur prófsins segja það veita rétta niðurstöðu í 99,7% tilvika. Lyfjaeftirlit Bretlands hefur veitt leyfi fyrir sölu á prófinu.

Framleiðendur BioSure HIV prófsins vonast til þess að með prófinu verði hægt að finna þá 26 þúsund Breta sem eru HIV smitaðir en vita það ekki.

Stofnandi BioSure, Brigette Bard, segir að þetta geti þýtt að fólk kanni hvort það sé HIV smitað án mikillar fyrirhafnar en með greiningu snemma er hægt að koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdómsins. Jafnframt eykur það líkur á að viðkomandi fái fullnægjandi meðferð.

Yfir 40% þeirra sem eru HIV smitaðir hafa greinst seint, eða eftir að minnsta kosti fjögur ár frá smiti. Ef fólk greinist seint eru 11 sinnum meiri líkur á að viðkomandi deyi á fyrsta árinu frá greiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert