Hafa gefið birgðaflutningageimfarið upp á bátinn

Rússneska geimstofnunin Roscosmos hefur gefist upp á að reyna ná stjórn á birgðaflutningageimfarinu Progress sem snýst nú stjórnlaust á hrakandi sporbraut um jörðu. Áhöfn Alþjóðlegu geimstöðvarinnar segist munu hafa það gott þrátt fyrir að flutningafarið hafi verið afskrifað.

Þrjú tonn af búnaði og vistum voru um borð í birgðaflutningaskipinu sem var skotið á loft í gærmorgun og áttu að fara til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Skömmu eftir geimskotið tapaðist samband við farið og allar tilraunir til að ná stjórn á því misheppnuðust. Það snýst nú stjórnlaust á braut um jörðina en mun á endanum falla aftur niður í lofthjúp jarðar og brenna upp að mestu leyti. Progress-förunum er yfirleitt eytt með þeim hætti eftir að þau hafa skilað af sér birgðunum til geimstöðvarinnar og tekið við rusli úr henni.

„Við ættum að vera í lagi. Áætlunin gerir ráð fyrir því að hlutir af þessu tagi eigi sér stað. Það er afar óheppilegt þegar þeir gera það. Aðalmálið er að það er hægt að skipta út búnaði,“ sagði bandaríski geimfarinn Scott Kelly sem er einn sex manna sem eru um borð í geimstöðinni.

Félagi hans, Rússinn Mikhail Kornienko, segir uppákomuna óheppilega en hann sé þess fullviss að starfsemi geimstöðvarinnar haldi áfram óbreytt þangað til næsta birgðaflug kemst til hennar. SpaceX, geimferðafyrirtæki Elon Musk, ætlar að senda vistir til geimstöðvarinnar í júní.

Fyrir utan mat, vatn, súrefni og ýmsan búnað var eftirlíking af sovéskum sigurfána um borð í Progress-flutningahylkinu sem hermenn Rauða hersins drógu að húni á Ríkisdeginum í Berlín eftir að þeir höfðu frelsað borgina undan nasistum 1. maí 1945. Fáninn er opinbert tákn sigurs Sovétmanna á nasistum í stríðinu og ætluðu rússnesku geimfararnir í geimstöðinni að nota hann til að senda skilaboð heim þegar sigursins verður minnst 9. maí. 

Progress-birgðaflutningageimfarið á skotpallinum í Baikonur í Kasakstan þar sem því …
Progress-birgðaflutningageimfarið á skotpallinum í Baikonur í Kasakstan þar sem því var skotið á loft í gærmorgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert