Tölvuleikur byggður á lífi Britney Spears

Britney Spears.
Britney Spears. AFP

Tölvuleikjaframleiðandinn Glu Mobile hefur gert samkomulag við poppsöngkonuna Britney Spears um útgáfu á tölvuleik sem byggist á lífi hennar. Glu Mobile rennir ekki alveg blint í sjóinn í þessu efni en fyrirtækið hefur hagnast um 100 milljónir bandaríkjadala á leik sem byggist á lífi annars frægðarfljóðs, Kim Kardashian. Ekki er komið nafn á leikinn, sem kemur á markað snemma á næsta ári, en mögulega verður það Úps, getið þið gert það aftur?

Um er að ræða samning til átta ára og Glu Mobile heitir því að þeir sem spila leikinn geti upplifað allt sem afþreyingarbransinn hefur upp á að bjóða, glans og glamúr. Áhersla verður á fyrstu ár Spears í sviðsljósinu, þegar hún var ein vinsælasta poppsöngkona í heimi, og endurkomuna í Las Vegas. Minna verður gælt við árin þar á milli þegar Spears vegnaði ekki alveg eins vel.

„Britney Spears hefur notið velgengni í meira en áratug. Hún nýtur vinsælda um víðan völl, ekki bara á Vesturlöndum heldur ekki síður á mörkuðum sem eru í örri þróun,“ segir framkvæmdastjóri Glu Mobile, Niccolo de Masi. „Við munum nota samstarfið við hana til að fá nýtt fólk að leikjaborðinu. Fólk sem ekki hefur spilað tölvuleiki áður.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert