Dragon náði að flýja

Dragon-farþegahylkið (t.v.) skömmu eftir að það skildi sig frá staðgengli …
Dragon-farþegahylkið (t.v.) skömmu eftir að það skildi sig frá staðgengli eldflaugarinnar í tilraunafluginu í gær. AFP

Tilraunaflug SpaceX með geimfar sem hannað er til að flytja menn gekk að óskum í gær. Tilgangurinn með tilrauninni var að prófa neyðarbúnað Dragon-geimfarsins sem á einn daginn að flytja menn út í geim. Hann gerir mönnum kleift að skjóta farþegahylkinu frá eldflauginni ef hætta steðjar að.

Dragon-geimfarið hefur fram að þessu verið notað til þess að flytja birgðir til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. SpaceX, geimferðafyrirtæki athafnamannsins Elons Musk, vinnur nú að breyttri hönnun þess sem á að geta flutt menn út í geiminn.

Farþegahylkinu var skotið á loft af skotpalli í Flórída í gær. Að þessu sinni var það hins vegar ekki eldflaug sem knúði hylkið heldur átta þrýstihreyflar (e. thruster) á hliðum þess. Tilgangurinn var enda ekki að koma því á braut um jörðu heldur aðeins að prófa hvort að búnaður þess sem er hannaður til að skilja farþegahylkið frá eldflaug virkaði sem skyldi.

Hreyflarnir skutu Dragon-hylkinu upp í um 1,6 kílómetra hæð og náði það mest um 555 km/klst. Á hæsta punktinum losaði hylkið sig frá hólki sem hafði verið fest undir það til að líkja eftir Falcon 9-eldflauginni sem það væri öllu jafna fest ofan á. Farþegahylkið sveif síðan með fallhlífum síðan heilu og höldnu í Atlantshafinu, um 2,2 kílómetrum frá skotpallinum.

„Útkoman var frábær. Ef fólk hefði verið um borð þá hefði það verið í fínu ásigkomulagi,“ sagði Musk eftir tilraunaflugið sem var tekið upp frá upphafi til enda. Myndbandið má sjá neðst í fréttinni.

Neyðarskotkerfið er innbyggt í þrýstihreyfla Dragon-geimfarsins og eiga að gera geimförum kleift að skjóta farþegahylkinu örugglega frá eldflauginni hvenær sem er frá geimskotinu á leið til sporbrautar um jörðu ef eitthvað kemur upp á.

SpaceX ætlar sér að gera aðra tilraun með farþegahylkið í sumar en þá með alvöru Falcon 9-eldflaug til að prófa búnaðinn í mikilli hæð og á hraða sem er yfir hljóðhraða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert