Blátt sólsetur á rauðum hnetti

Könnunarjeppinn Curiosity fangaði sólsetrið á reikistjörnunni Mars í lit í fyrsta skipti frá því að vélmennið lenti þar árið 2012. Ólíkt jörðinni þar sem himininn virðist brenna í rauðum og gulum litum er sólsetrið á Mars fölbláleitt. Ástæðan er fínt ryk í þunnum lofthjúpi rauðu reikistjörnunnar.

Myndunum náði Curiosty 15. apríl á milli sandstorma sem geisa á þessari eyðimerkurveröld. Rykið í lofthjúpnum er einmitt af þeirri stærð að blái hluti ljóssins smýgur greiðar í gegnum lofthjúpinn en aðrir hlutar þess, að sögn Marks Lemmon við Texas A&M-háskólann sem er hluti af vísindateymi Curiosity.

„Þegar bláa ljósið dreifist í rykinu heldur það sig nær stefnu sólarinnar en aðrir litir ljóssins. Afgangurinn af himninum er gulur eða appelsínugulur þar sem að guli og rauði liturinn dreifast um allan himininn í stað þess að [rykið] drekki þá í sig eða þeir haldi sig nálægt sólinni,“ segir Lemmon.

Sólsetursmyndirnar hafa ekki aðeins fagurfræðilegt gildi því þær hjálpa vísindamönnum að skilja betur hvernig ryk dreifist um lofthjúp Mars.

Vísindamenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hafa jafnframt gert stutt myndskeið með myndum Curiosity sem sýna sólina setjast á bláum himni Mars.

Frétt á vef Jet Propulsion Lab NASA hjá Caltech-háskóla 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert