Þrír strandaglópar í geimnum

Geimfararnir eru ekki á förum á næstunni.
Geimfararnir eru ekki á förum á næstunni. AFP

Þrír rússneskir geimfarar, sem staddir eru um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni, munu ekki snúa aftur til jarðar næstkomandi fimmtudag líkt og áformað var. Er nú stefnt að því að mennirnir snúi aftur einhvern tímann í júní.

Greint er frá þessu í rússneskum fréttamiðlum í dag. Er þar meðal annars vísað til orða yfirmanns innan rússnesku geimstofnunarinnar Roscos­mos. En hann segir ástæðuna vera nýlegt óhapp þegar birgðaflutningageimfarið Progress brann upp í lofthjúpi jarðar yfir Kyrrahafi.

Um borð í geimfarinu voru vistir, búnaður og súrefni sem flytja átti til geimstöðvarinnar. Farið skilaði sér hins vegar aldrei og brann farmur þess allur upp.

Talið er að orsök bilunarinnar sé að finna í Soyuz-eldflauginni sem skaut farinu á loft en ekki birgðaflutningahylkinu sjálfu. Eru samskonar eldflaugar notaðar til að senda geimfara til geimstöðvarinnar.

Að sama skapi verða einnig tafir á því að menn fari næst til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Verða að líkindum næstu geimfarar sendir í júlí.

Um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni eru nægar vistir og er áhöfn hennar, þrátt fyrir þá uppákomu sem átti sér stað nýverið, því ekki talin í neinni hættu. Geimförunum hefur þó verið ráðlagt að fara sparlega með vistir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert