Svipmynd af örlögum sólarinnar

Hin litríka Medúsaþoka varð til þegar stjarna í hjarta hennar varpaði frá sér efni út í geiminn í andarslitrunum. Sólin okkar mun enda lífdaga sína sem samskonar fyrirbæri og því er mynd sem náðst hefur af þokunni með VLT-sjónaukanum, sem er sú besta sem náðst hefur, um leið svipmynd af örlögum sólarinnar.

Í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli ESO kemur fram að Medúsaþokan er svonefnd hringþoka. Hún er um fjögur ljósár á breidd og í um 1.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Tvíburunum.

Hún er nefnd eftir ófreskjunni Medúsu úr grísku goðafræðinni sem hafði snáka í stað hárs. Í þokunni eru snákarnir glóandi gasþræðir. Rauði bjarminn stafar af vetni en græni liturinn, sem er öllu daufari, kemur frá súrefnisgasi sem liggur út fyrir myndina og er sigðarlaga á himninum. Stjarna á þessu þróunarstigi varpar frá sér efni slitrótt og getur það leitt til heillandi myndana í hringþokunni.

Kjarnar stjarnanna sem mynda hringþokur eru umluktir glæsilegum og litríkum gasskýjum sem þessum í tugþúsundir ára. Með tíð og tíma dreifist gasið um geiminn. Þetta markar seinasta stigið í umbreytingu stjarna á borð við sólina sem enda ævina sem hvítir dvergar. Hringþokustigið í ævi stjörnu eru örstutt, sambærilegt við það augnablik sem það tekur barn að blása upp sápukúlu og sjá hana reka burt miðað við mannsævina.

Frétt á vef ESO um myndina af Medúsuþokunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert