Sterkeindahraðallinn slær orkumet

Sterkeindahraðallinn er í 27 km löngum göngum undir yfirborði jarðar.
Sterkeindahraðallinn er í 27 km löngum göngum undir yfirborði jarðar.

Met voru slegin þegar menn hófu tilraunir með stóra sterkeindahraðal evrópsku kjarnorkurannsóknastofnunarinnar CERN í gær. Tveimur geislum róteinda var beint hvor að öðrum og nam orka árekstra þeirra um þrettán milljörðum rafeindavolta. Það er mun meiri orka en í fyrri tilraunum með hraðalinn.

Árekstrarnir nú eru aðeins undirbúningurinn fyrir tilraunir sem verða gerðar í sumar. Nú þegar byrjað er að valda árekstrum á milli róteinda í hraðlinum verður þeim smátt og smátt fjölgað. Tilgangurinn er að koma auga á þær eindir sem verða til við árekstrana á þessum gríðarlega hraða.

Síðast þegar hraðallinn var keyrður af fullu afli árið 2012 náði orka árekstranna mest um átta milljörðum rafeindavolta. Meiri hraði á róteindunum er mikilvægur rannsóknunum því að vísindamennirnir eru á höttunum eftir afar sjaldgæfum eindum eins og Higgs-bóseindinni sem fannst við síðustu tilraunirnar með hraðalinn. Því fleiri árekstrar sem verða á sekúndu því líklegra er að menn fái gögn sem eru tölfræðilega marktæk, segir David Newbold, prófessor við Háskólann í Bristol sem vinnur við rannsóknirnar við breska ríkisútvarpið BBC.

Rannsóknirnar með stóra sterkeindahraðlinum eiga að hefjast af fullum krafti í júní en vísindamenn renna nokkuð blint í sjóinn með hvað þeir gætu fundið í braki róteindanna sem þeir láta rekast saman á ógnarhraða.

„Hvert og eitt okkar hefur ákveðna hluti sem við höfum mestan áhuga á, það er fjöldi nýrra eðlisfræðilíkana sem gætu birst. Í hreinskilni sagt getum við ekki sagt með vissu hvað kemur í ljós, ef þá eitthvað,“ segir Dan Tovey, prófessor í eðlisfræði við Háskólann í Sheffield sem vinnur við sterkeindahraðalinn.

Frétt BBC um undirbúning rannsókna með sterkeindahraðlinum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert