Fá hærri einkunn í skóla en samræmdum prófum

Ernir Eyjólfsson

Börn innflytjenda í Svíþjóð fá yfirleitt hærri einkunn prófum sem kennarar þeirra leggja fyrir þau en í samræmdum prófum ólíkt bekkjarfélögum sem eiga sænska foreldra.

Þetta kemur fram í frétt Dagens Nyheter en þar er fjallað um einkunnir nemenda í menntaskólum og efstu bekkjum grunnskóla. 

Svo virðist sem 36% barna innflytjenda í níunda bekk fái hærri einkunn á skólaprófum í stærðfræði en í samræmdu prófum. En ef foreldrarnir eru báðir sænskir eru 29,6% með hærri einkunn í skólaprófum. 

Karin Hector Stahre, sem stýrir framkvæmd prófa hjá Skolverkets, segir að þetta geti stafað af erfiðleikum innflytjendabarna með skrifleg próf vegna vankunnáttu í sænsku. Kennarar þekki nemendur sína og leggi fram próf á ólíkan hátt. Hún segir að þetta sé hins vegar áhugaverð niðurstaða sem þurfi að skoða betur.

Ekki er langt síðan að OECD lagði það til við sænsk yfirvöld að þau myndu fjárfesta frekar í kennurum, með hærri launum og meiri möguleika á starfsframa. Það var niðurstaða rannsóknar á því hvað hafi misfarist í sænska skólakerfinu vegna bágrar stöðu landsins í alþjóðlegum prófum eins og Pisa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert