89 þúsund heimili með 100 Mb/s tengingu

Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.
Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.

Búið er að uppfæra ljósveitubúnað fyrir 89 þúsund heimili á höfuðborgarsvæðinu, Akranesi, Hveragerði og Þorlákshöfn þannig að þeir eru með 100 megabita gagnahraða á sekúndu til hvers notenda. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mílu, en 30 þúsund heimili í viðbóta hafa aðgang að ljósveitu með allt að 70 megabita tengingu.

Í nýrri skýrslu starfshóps innanríkisráðherra „Ísland ljóstengt“ kemur fram það markmið að allir landsmenn skuli hafa aðgang að 100 megabita tengingu árið 2020. Þingsályktunartillaga um fjarskiptaáætlun sem samþykkt var á Alþingi setur 100 megabita markið fyrir árið 2022. 

„Engar framkvæmdir fylgja þessari uppfærslu, hvorki í götu, á húsnæði notenda eða lóð. Þessi aukning hefur sömuleiðis ekki áhrif á verð þjónustunnar frá Mílu” segir Jón R. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu í tilkynningunni. Aðeins þarf að skipta um búnað í götuskápum Mílu og er þeirri aðgerð lokið á ofangreindum svæðum.

Hingað til hefur umræða um 100 megabita tengingu verið tengd ljósleiðara. Er þá Ljósveita það sama og ljósleiðari? „Ljósveita er bæði ljósleiðari alla leið inn á heimili og ljósleiðari með koparenda þar sem búnaður er notaður til að ná 100 megabita flutningsgetu. Nýjasta tækni gerir það að verkum að kapalgerð skiptir hér ekki máli.” segir Jón í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert