Rafbílarnir komast vart á blað

Rafbílar eru aðeins örlítill hluti af bílaflota Íslendinga enn sem …
Rafbílar eru aðeins örlítill hluti af bílaflota Íslendinga enn sem komið er. Kristinn Ingvarsson

Hreinir rafbílar eru vart mælanlegur hluti bílaflota Íslendinga þrátt fyrir gnótt hreinnar raforku. Það gæti þó verið að breytast en rafbíll var í fyrsta skipti mest seldi bíll BL í mars. Gísli Gíslason, forstjóri Even, telur að fleiri rafbílar verði seldir á Íslandi en bensínbílar innan fimm ára.

Ríki heims vinna nú að því að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum sem valda hættulegum breytingum á loftslagi jarðarinnar. Fyrir utan stóriðjuna kemur stærsti hluti losunar Íslendinga á koltvísýringi frá bílasamgöngum. Rafbílar gætu verið vænlegur kostur til að draga mikið úr þeirri losun í ljósi þess magns raforku sem framleidd er hér á landi með endurnýjanlegum hætti.

Þrátt fyrir það er rafbílavæðing Íslands afar skammt á veg komin. Samkvæmt tölum Samgöngustofu voru alls 256.349 bifreiðar skráðar hér á landi 2. júní. Af þeim voru aðeins 463 hreinir rafbílar, um 0,2% af bílaflota landsins. Ef einnig er litið til blendingsbíla sem nýta rafmagn að einhverju leyti sem orkugjafa skríður hlutfallið upp í 0,7%.

Rafbílunum hefur þó fjölgað hratt hlutfallslega. Frá 2005 til 2011 voru aðeins 13-15 hreinir rafbílar skráðir á Íslandi en árið 2012 rúmlega tvöfaldaðist fjöldi þeirra og þrefaldaðist bæði á milli 2012 og 2013 og 2013 og 2014. Þeim hefur fjölgað um tæp 50% á þessu ári miðað við það síðasta.

Nýskráningum rafbíla fjölgar einnig. Aðeins tveir rafbílar voru nýskráðir frá 2005 til 2011 en árið 2012 voru þeir 19. Í fyrra voru 203 nýir rafbílar settir á bifreiðaskrá en þegar hafa 148 slíkir bílar verið nýskráðir það sem af er þessu ári.

Margir að velta fyrir sér rafbílum

Þessi aukning er í samræmi við upplifun Harðar Harðarson, sölustjóra Nissan hjá bílaumboðinu BL. Fyrirtækið selur meðal annars rafbílinn Nissan Leaf auk nokkurra tegunda rafknúinna sendibíla. Í mars gerðist það í fyrsta skipti að rafbíll var mest seldi bíll fyrirtækisins þegar 25 eintök af Leaf seldust í kjölfar herferðar fyrirtækisins í þeim mánuði.

„Fólk er orðið miklu meðvitaðra um gildi og kosti rafbílanna. Það er veruleg aukning í að fólk sé að spá og spekúlera, mikið komið og prófað og alls kyns pælingar í gangi. Ef menn ætla að taka bílalán geta þeir borgað af rafmagnsbíl það sem þeir eru vanir að leggja í eldsneytiskostnað á mánuði,“ segir Hörður sem bendir á að margir borgi 30.000-50.000 krónur í eldsneytiskostnað á mánuði.

Rafbíllinn taki hins vegar ekki alveg við af bensínbílnum því vegna drægi hans sé ekki hægt að fara með fjölskylduna í sumarfríið út á land á honum. Þá segir Hörður að nokkur óvissa sé um verð á rafbílum á næsta ári. Núna séu þeir undanþegnir virðisaukaskatti og vörugjöldum en ekki liggi fyrir hvort að sú undanþága verði framlengd fyrir næsta ár.

Bíll númer tvö varð númer eitt

Gísli Gíslason, sem rekur fyrirtækið EVEN sem selur ýmsar tegundir rafbíla, segir Ísland fylgja sömu kúrfu og Noregur í rafbílavæðingu. Þar hafi sala rafbíla tekið mikinn kipp síðustu ár. Ísland sé nú á þeim stað þar sem Noregur tók beygju upp kúrfuna.

„Fólk er allt í einu að átta sig á því að 95% af allri keyrslu þess er undir 100 kílómetrum þannig að í 95% tilvika dugar bíllinn því. Samt heldur fólk að bíllinn þeirra þurfi að komast allt, hann þurfi líka að fara á Akureyri og annað. Það gleymir því að ef það á tvo bíla þá getur það bara farið á hinum,“ segir Gísli.

Sú þróun hafi átt sér stað í Noregi. Fólk hafi keypt sér rafbíl sem bíl númer tvö en hann hafi á endanum endað sem bíll númer eitt. Þegar fólk geti keypt sér rafbíl á sambærilegu verði og sambærilegur bensínbíll liggi ákvörðunin um að skipta beint við. 

„Mín spá er að innan fimm ára muni seljast fleiri rafbílar en bensínbílar í hverjum mánuði á Íslandi,“ segir Gísli.

Hann telur lítilla aðgerða þörf til að stuðla að rafbílavæðingu á Íslandi. Fjárfesta þyrfti um 200-250 milljónir króna í hraðhleðslukerfi um landið sem sé svipaður kostnaður og við litla brú en það sé gríðarleg samgöngubót sem geri það að verkum að hægt sé að keyra í kringum landið á rafbíl.

„Um leið og búið er að taka þetta frá opnast stærri markhópur fyrir rafbílana,“ segir Gísli.

Gísli Gíslason, forstjóri Even.
Gísli Gíslason, forstjóri Even.

Erfitt að réttlæta kaup á bensínbíl eftir nokkur ár

Gísli gagnrýnir stjórnvöld fyrir að hafa ekki séð ljósið um möguleika rafbílavæðingar. Alltaf virðist vera nægir peningar til að setja upp metanstöðvar, framleiða eldsneyti úr bláþörungum eða repjuolíu. Íslendingar eigi hins vegar næga orku fyrir.

„Hvers vegna erum við ekki tilbúin að nota okkar eigin orku? Af hverju viljum við alltaf finna einhverjar aðrar leiðir til að búa til nýjar og meiri orku sem er mjög dýrt að búa til þegar við eigum hreinustu orku í heimi sem kostar okkur lítið og sem við erum ekki að nota á næturna þegar flestir hlaða rafbíla sína,“ segir Gísli.

Rafbílar eiga eftir að vera enn vænlegri kostur á komandi árum eftir því sem þeir verða ódýrari og framfarir í rafhlöðutækni bæta drægi þeirra og hleðsluhraða. Gísli segir að eftir tvö ár fari flestir rafbílar um 300 kílómetra á hleðslu og með hraðhleðslustöðvum og nýrri tækni verði þeir fljótari að hlaða sig. Að fimm árum liðnum verði bílarnir farnir að fara 500-1.000 kílómetra á hleðslu.

„Bara næsta breyting eftir tvö ár gerir það að verkum að það verður erfitt að réttlæta það að fara inn í búð og kaupa sér bensínbíl sem kostar sama og rafbíll. Það kostar ekkert að reka rafbílinn, það kostar mikið að reka hinn. Þá þarftu að vera svolítið sértakur að ákveða það að ætla að gerast áskrifandi að því að kaupa bensín næstu fimm ár,“ segir Gísli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert