Gleypti heila vetrarbraut

Stór geislabaugur sést utan um Messier 87 á þessari djúpmynd. …
Stór geislabaugur sést utan um Messier 87 á þessari djúpmynd. Mikil birta í efri hægri hluta geislabaugsins og hreyfing hringþoka innan vetrarbrautarinnar eru einu merkin sem eftir eru um meðalstóra vetrarbraut sem rakst á Messier 87 nýlega á stjarnfræðilegum mælikvarða. Chris Mihos (Case Western Reserve-háskóli)/ESO

Stjörnufræðingar telja að vetrarbrautir vaxi með því að gleypa smærri vetrarbrautir. Ekki er auðvelt að sjá merki þess því stjörnurnar í þeim blandast saman. Hópur stjörnufræðinga fann hins vegar snjalla leið til að sýna fram á tilfelli slíks vetrarbrautaráts.

Þegar stærri vetrarbraut gleypir minni blandast stjörnurnar í þeim saman eins og vatn sem hellt er úr glasi í poll blandast fljótt. Hópur stjörnufræðinga undir forystu doktorsnemans Alessiu Longobardi við Max Planck-stjarneðlisfræðistofnunina í Þýskalandi fann hins vegar leið til að sýna fram á að risasporvöluvetrarbrautin Messier 87 hefði gleypt meðalstóra vetrarbraut einhvern tímann á síðasta milljarði ára, að því er kemur fram í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli, ESO.

Mældu grænleitt ljós hringþoka

Messier 87 er í miðju Meyjarþyrpingarinnar sem er risaþyrping vetrarbrauta. Vetrarbrautin sjálf inniheldur meira en þúsund milljarða stjarna og er í um 50 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Í stað þess að reyna að skoða allar stjörnurnar í Messier 87 — sem eru bókstaflega alltof margar og daufar til að hægt sé að greina þær stakar — mældu stjörnufræðingarnir hringþokur, glóandi skeljar aldurhniginna stjarna.

Hringþokur gefa frá sér áberandi skært ljós með ákveðnum grænleitum lit, svo hægt er að greina þær frá stjörnunum í kring, jafnvel úr mikilli fjarlægð. Nákvæmar mælingar á ljósi frá þokunum með öflugri litrófssjá getur sýnt hvernig þær hreyfast í geimnum. Hreyfingar hringþokanna voru mældar með FLAMES-litrófsritanum á Very Large Telescope en þær gefa vísbendingar um vetrarbrautasamruna á svipaðan hátt og vatn sem hellt er úr glasi í poll getur framkallað gárur og grugg.

„Við sjáum einn tiltekinn samruna, nýlegan, þar sem meðalstór vetrarbraut féll í gegnum Messier 87. Vegna öflugra flóðkrafta hafa stjörnurnar nú dreifst um svæði sem er 100 sinnum stærra en upprunalega vetrarbrautin!“ segir Ortwin Gerhard, yfirmaður aflfræðihópsins við Max Planck-stofnunina og meðhöfundur greinarinnar um rannsóknina.

Nálar í heystakki milljarða stjarna

Stjörnufræðingarnir rannsökuðu vel og vandlega ljósdreifingu í útjöðrum Messier 87 og fundu merki þess að meira ljós bærist frá stjörnunum sem voru í vetrarbrautinni sundurtættu. Mælingarnar sýna líka vel að sundurtætta vetrarbrautin bætti ungum, bláum stjörnum við Messier 87 og var því líklega stjörnumyndandi þyrilvetrarbraut fyrir samrunann.

„Það er mjög spennandi að geta greint stjörnur sem hafa dreifst um hundruð þúsund ljósára í hjúpi risasporvölunnar og geta um leið séð, út frá hraða þeirra, að þær tilheyrðu áður annarri vetrarbraut. Grænu hringþokurnar eru eins og nálar í heystakki gulleitra stjarna. Þessar sjaldgæfu nálar geyma vísbendingar um sögu stjarnanna,“ segir Magda Arnaboldi, meðhöfundur rannsóknarinnar.

Frétt á vef ESO um vetrarbrautarátið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert