Þriðja áfallið í geimflutningum í röð

Samsett mynd frá NASATV sem sýnir hvernig Falcon 9-eldflaug SpaceX …
Samsett mynd frá NASATV sem sýnir hvernig Falcon 9-eldflaug SpaceX sprakk um tveimur mínútum eftir geimskotið í gær. AFP

Orsök þess að Falcon 9-eldflaug bandaríska fyrirtækisins SpaceX sprakk skömmu eftir að henni var skotið á loft í gær liggur enn á huldu þrátt fyrir langa yfirlegu verkfræðinga fyrirtækisins. Eldflaugin átti að koma birgðaflutningahylki til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar en þetta er þriðja birgðaflugið sem ferst á einu ári.

Elon Musk, eigandi SpaceX, sagði í færslu á Twitter að sérfræðingar einbeittu sér nú að síðustu millísekúndum eldflaugarinnar áður en hún sprakk. Verkfræðingar fyrirtækisins hefðu lagt þúsundir vinnustunda í að kanna orsök sprengingarinnar án árangurs fram að þessu.

Ýmsir sérfræðingar í geimiðnaðinum hafa áhyggjur af þróun mála undanfarna mánuði. Óhappið í gær er þriðja birgðaflutningaflugið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar í röð sem ferst. Í október sprakk Antares-eldflaug bandaríska fyrirtækisins Orbital í Virginíu og í apríl missti rússneska geimstofnunin Roscosmos samband við birgðaflutningageimfarið Progress skömmu eftir geimskotið. Óhöppin eru ekki talin eiga neinar sameiginlegar orsakir.

Sýnir hversu erfitt er að fljúga eldflaugum

Bill Gerstenmaier, aðstoðaryfirmaður bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, segir óhappið í gær mikið áfall og að mikið af vísindatækjum hafi glatast. Þegar birgðaflutningar hafi verið faldir einkaaðilum hafi menn gert ráð fyrir að einhver för myndu farast. Enginn hafi hins vegar átt von á því að þrjú för í röð myndu tortímast. Það sýni fyrst og fremst hversu erfitt það er að fljúga eldflaugum.

„Við erum í raun að keyra vélar á mörkum getu þeirra til þess að virka,“ segir Gerstenmaier.

„Því miður er þetta hluti af bransanum. Hugmyndin um 100% áreiðanleika er ekki fyrir hendi,“ segir Eric Stallmer, forseti Atvinnugeimflugssambandsins.

Í kjölfar óhappsins í gær hefur þeirri spurningu verið varpað fram hvort að SpaceX sé í stakk búið til þess að flytja menn út í geiminn árið 2017 eins og til stendur. Gwynne Shotwell, forseti SpaceX, sagði hins vegar strax eftir slysið að það breytti ekki áætlunum fyrirtækisins.

Næsta birgðaflutningaflug til geimstöðvarinnar er áætlað á föstudag. Þá ætla Rússar að senda annað Progress-hylki á loft. Í ágúst verður japönsku HTV-geimfari skotið á loft og þá áformar Orbital annað geimskot í haust.

Fyrri fréttir mbl.is:

Eldflaug SpaceX sprakk

Sprakk í beinni útsendingu

Misstu samband við birgðageimfar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert