23:59:60

Einni sekúndu verður bætt við síðustu mínútu síðasta dags júnímánaðar.
Einni sekúndu verður bætt við síðustu mínútu síðasta dags júnímánaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagurinn í dag verður örlítið lengri en venjulegur dagur en svonefndri hlaupsekúndu verður bætt við síðustu mínútu júnímánaðar. Með þessu leiðrétta menn fyrir örlitlu fráviki í snúningshraða jarðarinnar, að sögn Gunnlaugs Björnsson, stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands.

„Snúningur jarðar sem við skilgreinum sólahringinn eftir er örlitlu broti úr sekúndu lengri en 24 stundir. Eftir að menn fóru að nota atómklukkur sem eru miklu nákvæmari þarf að leiðrétta tímann sem við mælum með snúningi jarðar öðru hvoru. Það er skotið inn svona hlaupsekúndu þegar frávikið frá atómklukkunum er orðið nægilega mikið,“ segir Gunnlaugur.

Frávikið í snúningi jarðar er örlítið en það kemur til af ýmsum ástæðum, meðal annars vegna flóðkrafta af völdum tunglsins og iðustrauma í iðrum jarðarinnar sjálfrar. Þessi breyting er óregluleg og því er engin föst regla á hvenær hlaupsekúndum er skotið inn í. Það var síðast gert árið 2012.

„Það er ekki hægt að spá nákvæmlega fyrir um það hvenær frávikið er orðið það mikið að það þurfi að skjóta inn í einni aukasekúndu. Menn bara fylgjast með þessu og svo þegar frávikið er orðið nægjanlegt skjóta menn inn sekúndu til að leiðrétta það,“ segir Gunnlaugur.

Þannig mun klukkan verða 23:59:60 í kvöld áður en hún slær miðnætti.

Getur slegið tölvukerfi út af laginu

Erlendis hafa menn áhyggjur af því hvaða áhrif hlaupsekúndan hefur á tölvukerfi og fjármálamarkaði. Aðeins er tilkynnt um hlaupsekúndur með hálfs árs fyrirvara og því er ekki hægt að gera ráð fyrir þeim í hugbúnaði tölva heldur þarf að slá þær handvirkt inn, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

„Alltaf þegar hlaupsekúndum er skotið inn í lenda einhver tölvukerfi í vandræðum vegna galla í kóðanum sem er skrifaður til að aðlagast þeim. Afleiðingarnar eru sérstaklega alvarlegar á Asíu- og Kyrrahafssvæðinu þar sem hlaupsekúndan á sér stað á hefðbundnum vinnutíma,“ segir Peter Whibberley, vísindamaður við bresku eðlisfræðirannsóknastofnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert