„Viðskiptavinir okkar ekki farangur“

AFP

„Við lítum ekki á viðskiptavini okkar sem farangur,“ sagði Wolfgang Epple, yfirmaður þróunar hjá bílaframleiðandanum Jaguar Land Rover (JLR), sem framleiðir, eins og nafnið gefur til kynnar, Jaguar, Land Rover og Range Rover. Hann segir fyrirtækið ekki hafa uppi nein áform um að bílar þess verði algjörlega sjálfvirkir og sjálfkeyrandi í framtíðinni.

Þetta er þvert á áætlanir fyrirtækja á borð við Audi, Mercedes-Benz, Nissan, Volvo, Google og Apple, sem hafa öll á stefnuskránni að bílar þeirra geti með tímanum keyrt sig sjálfir.

Epple segir þessi fyrirtæki öll á rangri braut. JLR hafi í hyggju að búa bíla sína búnaði sem aðstoðar ökumanninn í akstri, en að hann verði alltaf við stjórnina.

„Við viljum ekki búa til vélmenni sem ekur farmi frá A til B,“ segir hann. „Fólk vill virkja tilfinningahliðina í heilanum þegar það keyrir, og það gerist ekki þegar bíllinn keyrir sig sjálfur.“

Annar þáttur er aukið notagildi sjálfkeyrandi bíla og möguleg áhrif þeirra á sölutölur. Ef einn bíll er fær um að aka börnunum í skólann, keyra eigandann í vinnuna og síðan sækja börnin í skólann síðdegis þá gæti vísitölufjölskylda komist af með einn bíl frekar en tvo. Enn annar möguleiki er svo að fólk eigi ekki bíla, heldur deili þeim með fólki á tilteknu svæði, þannig að sjálfkeyrandi bílar hegði sér í raun eins og leigubílar.

Sjálfkeyrandi Audi.
Sjálfkeyrandi Audi. AFP
Sjálfkeyrandi bíll Google.
Sjálfkeyrandi bíll Google. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert