Ung þyrping í ævafornum risa

Stjörnuþyrpingin NGC 2367 samanstendur af bláleitum stjörnum sem enn eru …
Stjörnuþyrpingin NGC 2367 samanstendur af bláleitum stjörnum sem enn eru umluktar rauðleitu vetnisskýi sem þær mynduðust úr. ESO/G. Beccari

Barnungur stjörnuhópur í miðju gríðarstórrar og ævafornrar myndunar í jaðri Vetrarbrautarinnar sem sjónauki ESO hefur komið auga á er gott dæmi um þær myndanir sem verða til við fæðingu og dauða stjarna í vetrarbrautum.

Í frétt á vef evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli ESO er fjallað um mynd sem tekin var á MPG//ESO-sjónaukanum í La Silla-stjörnustöðinni í Síle. Hún er af lausþyrpingunni NGC 2367 en það er hópur ungra og heitra stjarna sem er í um 7.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Stórahundi.

Þyrpingin er aðeins um fimm milljón ára gömul og því eru flestar stjörnurnar í henni ungar og heitar og geisla frá sér skæru bláu ljósi. Þær eru enn umluktar leifum stjörnuþokunnar sem þær urðu til úr og sjást þær sem þokuslæður úr rauðleitu vetnisgasi.

Lausþyrpingar á borð við NGC 2367 eru algengar í þyrilvetrarbrautum eins og þeirri sem við búum í og finnast gjarnan í jöðrum þeirra. Á ferðalagi sínu um miðju vetrarbrautarinnar verða þær fyrir þyngdartogi frá öðrum þyrpingum og stórum gasskýjum í nágrenninu. Þar sem þyngdarkrafturinn bindur þær aðeins lauslega saman — og vegna þess að þær glata massa þegar gasið fýkur burt fyrir tilverknað geislunar frá ungu, heitu stjörnunum — leysast þyrpingarnar fljótt upp og systurstjörnurnar reka burt hver frá annarri. Þetta er talið hafa komið fyrir sólina okkar fyrir milljörðum ára. Venjulega endast lausþyrpingar í nokkur hundruð milljónir ára áður en þær leysast alveg upp.

Af þessum sökum eru þyrpingarnar heppilegar til rannsókna á þróun stjarna. Allar stjörnurnar í þeim urðu til nokkurn veginn samtímis úr sama efnisskýi, svo auðvelt er að bera þær saman til að reikna út aldur og kortleggja þróunarsögu þeirra.

Með stærstu myndunum sem geta orðið til í vetrarbrautum

NGC 2367 og þokan sem hún er inni í eru taldar vera í hjarta miklu stærri geimþoku sem kallast Brand 16 og er sjálf aðeins lítill hluti af risavaxinni efnisskel sem heitir GS234-02. Risaskelin liggur að útjöðrum Vetrarbrautarinnar. Hún er mjög víðáttumikil myndun sem spannar mörg hundruð ljósár.

Skelin varð til þegar hópur mjög efnismikilla stjarna, sem gáfu frá sér öfluga stjörnuvinda, mynduðu heitar gasbólur sem þöndust út. Þegar bólurnar runnu saman og mynduðu risabólu sprungu stjörnurnar í þeim á svipuðum tíma sem þandi bóluna enn lengra út. Þar rann sú risamyndun saman við aðrar risabólur og varð efnisskelin þá til. Efnisskeljar af þessu tagi eru með stærstu myndunum sem geta orðið til í vetrarbrautum.

Þetta sammiðja útþensluský, jafn gamalt og það er stórt, er prýðilegt dæmi um þær myndanir sem mótast við fæðingu og dauða stjarna í vetrarbrautum.

Frétt á vef ESO um NGC 2367

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert