Fáðu þér sundsprett með skjaldböku

Á skjaldbökubaki um Kóralrifið mikla.
Á skjaldbökubaki um Kóralrifið mikla. Skjáskot af Youtube

Hafi þig einhvern tímann dreymt um að vera skjaldbaka þá er myndband sem dýraverndunarsamtökin WWF í Ástralíu hafa gert eitthvað fyrir þig. Í því er hægt að fylgjast með skjaldböku með GoPro-myndavél á bakinu svamla um Kóralrifið mikla, svo gott sem með hennar eigin augum.

Kóralrifið, sem er undan ströndum Queensland-ríki í austurhluta Ástralíu, er það stærsta í heiminum og er heimkynni um sex þúsund dýrategunda. WWF gerði myndbandið til þess að vekja athygli á mengun sem setur skjaldbökurnar þar meðal annars í hættu.

Í tengslum við verndunarverkefni sem samtökin taka þátt í gafst tækifæri til að koma GoPro-myndavél fyrir á baki skjaldböku. Það var gert til þess að fylgjast með atferli skjaldbaka sem sleppt er aftur út í hafið eftir að hafa verið merktar til rannsókna. Afraksturinn má sjá í meðfylgjandi myndbandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert