Rottufóður vekur spurningar

Þessi rotta kom líklega aldrei nálægt tilraunastofu en sást á …
Þessi rotta kom líklega aldrei nálægt tilraunastofu en sást á flakki í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Arnaldur

Franskir vísindamenn birtu í dag niðurstöður rannsóknar um meindýraeitur í fóðri fyrir tilraunarottur. Þeir segja niðurstöðurnar varpa rýrð á eldri eiturefnarannsóknir en aðrir vísindamenn segja ályktanirnar ekki studdar nægum gögnum.

Samkvæmt rannsókninni, sem birtist í vísindatímaritinu PLOS ONE, fundust mengunarefni í 13 mismunandi tegundum af fóðri fyrir tilraunarottur, frá fimm heimsálfum. Alls fundust leifar 262 meindýraeitra, fjórir þungamálmar og 22 erfðabreyttar lífverur.

Þessi mengun efna sem þekkt eru fyrir að hafa eitrandi áhrif gæti mögulega verið orsök svokallaðra „fyrirvaralausra“ sjúkdóma í tilraunarottum, segja höfundar rannsóknarinnar. Í rannsóknum er lúta að matvælaöryggi hafa þessir sjúkdómar verið raktir til erfðaþátta en ekki þeirra efna sem verið er að rannsaka.

Teymið segir niðurstöðurnar kveikja efasemdir um eldri rannsóknir um eitranir í mat; rannsóknir sem ítrekað eru  notaðar til viðmiðunar í nýjum rannsóknum.

Aðrir vísindamenn hafa þó tekið niðurstöðunum með fyrirvara og segja að samanburðarrannsókna sé þörf. Aðeins sé um að ræða vangaveltur. Meðal þeirra er Alan Boobis, prófessor í lyfjafræði við Imperial College London, sem segir að magn einstakra mengunarvalda hafi mælst afar lítið og ekki í magni sem getur valdið eitrun, eins og gefið sé í skyn.

Samkvæmt AFP tilheyrðu margir höfunda rannsóknarinnar öðru teymi sem birti afar umdeilda rannsókn árið 2012 um áhrif erfðabreytts maís á nýgengni krabbameins í tilraunarottum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert