Bless bless, bóluplast

Plast, þó ekki bóluplast.
Plast, þó ekki bóluplast. mbl.is/Árni Sæberg

Hver kannast ekki við að taka plastið utan af nýja stólnum og skemmta sér svo við að sprengja þessar litlu bólur, og upplifa undarlega hugarró við það. Þessi ró er senn á enda, því fyrirtækið sem framleiðir bóluplast hefur nú kynnt nýja tegund bóluplasts, með loftbólum sem springa ekki.

Fyrirtækið Sealed Air hefur framleitt bóluplast frá því á sjöunda áratugnum. Nýja bóluplastið heitir iBubble Wrap, eða iBóluplast. Plastið er selt flatt og loftlaust, en fyrirtækið segir að einn vörubílsfarmur af nýja plastinu dugi til að pakka inn jafnmiklu og 47 vörubílsfarmar af gamla plastinu gerðu.

Til að blása upp plastið þarf sérstaka pumpu. Bólurnar blásast upp í röðum og eru tengdar innbyrðis. Þess vegna eiga þær ekki að springa eins og bólurnar í gamla bóluplastinu. Þess í stað fer loftið bara á milli bólna.

Fyrirtækið segir þó að það muni halda áfram að framleiða gamaldags bóluplast. Nái nýja tegundin fótfestu eru hins vegar allar líkur á að framleiðslu á því gamla verði á endanum hætt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert