Ísöld ekki í uppsiglingu

Sólin fer í gegnum sveiflur í sólblettavirkni á 10-12 árum. …
Sólin fer í gegnum sveiflur í sólblettavirkni á 10-12 árum. Í hámarkinu eykst útgeislun hennar örlítið og minnkar að sama skapi í lágmarkinu. Af Stjörnufræðivefnum

Af fréttum íslenskra fjölmiðla síðustu daga mætti ætla að fimbulkuldi vofi yfir jarðabúum eftir aðeins fimmtán ár vegna minnkandi virkni sólarinnar. Lítil-ísöld er þó nær örugglega ekki væntanleg og möguleg tímabundin kólnun myndi ekki jafna út áhrif loftslagsbreytinga sem eiga sér stað.

Rannsókn vísindamanna við Háskólann í Northumbria á Englandi sem þeir kynntu á fundi Konunglega stjörnufræðifélagsins um virkni sólarinnar hefur vakið töluverða athygli hér á landi undanfarna daga. Aðallega fyrir þær sakir að frá henni hefur verið sagt á þann hátt að von sé á lítilli-ísöld, sambærilegri við þá sem varð í Evrópu á seinni hluta 17. aldar, eftir fimmtán ár.

Nær öruggt er þó að slík ísöld er ekki í uppsiglingu. Engin ritrýnd grein hefur enn birst um rannsókn vísindamannanna en þeir hafa gert líkan af sólblettavirkni sólarinnar sem þeir fullyrða að skili afar nákvæmum spám um þekktar sveiflur í virkni sólarinnar. Einu fréttirnar af rannsókninni er tilkynning á vefsíðu Konunglega stjörnufræðifélagsins um kynningu þeirra á störfum sínum.

Sólin olli ekki ein litlu-ísöldinni

Eins og kemur fram í frétt á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins gengur sólin í gegnum svonefnda sólblettasveiflu á 10-12 árum. Þegar sólblettasveiflan er í hámarki er útgeislun sólarinnar örlítið meiri en þegar hún er í lágmarki. Vísindamennirnir á Englandi segja líkan sitt benda til þess að sólin sé á leiðinni inn í tímabil minni virkni í líkingu við svonefnt Maunder-lágmark. Það tímabil minni sólblettavirkni átti sér stað á meðan litla-ísöldin í Evrópu átti sér stað og stóð yfir í áratugi.

Það kuldaskeið hófst hins vegar löngu áður en sólblettavirknin náði algeru lágmarki og því getur það ekki hafa verið sólin ein sem olli kólnuninni. Þar að auki varð það verst í Evrópu. Hefði orkan sem barst til jarðar frá sólinni verið orsök hennar hefði kólnunin átt að vera hnattræn en það var hún ekki.

Halldór Björnsson, loftslagsfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að Maunder-lágmarkið hafi haft einhver áhrif á meðalhita jarðarinnar. Hugsanlega hafi hann verið allt að 0,5°C lægri en svæðisbundin áhrif hafi líklega verið meiri.

„Ef nýtt Maunder-lágmark væri í uppsiglingu þá mætti líklega búast við einhverjum sveiflum í þessa veru en þó ekki endurtekningu á sömu svæðisbundnu breytingunum. Hlýnun frá því fyrir 1900 er nú þegar um 0,8°C svo nýtt Maunder-lágmark myndi einungis rúlla hluta af því til baka,“ segir Halldór.

Við það má bæta að jafnvel þó að minni sólblettavirkni gæti tímabundið dregið úr hlýnun jarðar af völdum manna hefði það engin áhrif á aðrar afleiðingar loftslagsbreytinga eins og súrnun sjávar en hún er bein afleiðing af losun á gróðurhúsalofttegundum.

Reykjavíkurtjörn að vetri til.
Reykjavíkurtjörn að vetri til. mbl.is/RAX

Jörðin yrði óbyggileg

Í fréttinni á vef Konunglega stjörnufræðifélagsins kemur einnig fram að líkan vísindamannanna bendi til þess að draga muni úr virkni sólarinnar um allt að 60% og hefur það verið endurtekið í fréttum íslenskra fjölmiðla. Fyrir utan að vera eðlisfræðilega ómögulegt myndi slíkur samdráttur á virkni sólarinnar gera jörðina óbyggilega. Í raun er þar átt við að sólblettavirkni sólarinnar gæti dregist saman um allt að 60% á meðan þessu lágmarki stendur.

Megininntak rannsóknarinnar er ennfremur ekki að spá nýju Maunder-lágmarki, hvað þá nýrri ísöld, heldur að skilja betur sólblettasveiflur sólarinnar. Fyrirsögn fréttatilkynningarinnar um kynningu vísindamannanna vísar þannig í engu til ísaldar. Líkan þeirra bendi hins vegar til að mögulega sé sólin að færast inn í tímabil minni virkni sem hefur ekki sést síðan við Maunder-lágmarkið. Eins og áður segir hefur engin ritrýnd grein um þessar rannsóknir við birt og fullyrðingar um að vísindamenn spái nýrri ísöld eru því ótímabærar og færðar mjög í stílinn.

„Fleiri smella eflaust ef titill á frétt er „Vísindamenn spá lítilli ísöld“ en „Tvöfaldur rafall knýr hjartslátt sólar“,“ segir í athugasemd Stjörnufræðivefsins við fréttaflutninginn.

Fréttin á vef Konunglega stjörnufræðifélagsins

Frétt RÚV af rannsókninni

Erum við á leið inn í nýja ísöld? Alveg örugglega ekki.Á 10-12 ára tímabili gengur sólin í gegnum það sem við köllum...

Posted by Stjörnufræðivefurinn on Monday, 13 July 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert