Jörðin í allri sinni dýrð

Mynd Deep Space Climate Observatoryaf jörðinni úr 1,6 milljón kílómetra …
Mynd Deep Space Climate Observatoryaf jörðinni úr 1,6 milljón kílómetra fjarlægð. Myndin var tekin 6. júlí 2015. AFP

Að sjá jörðina sem reikistjörnu í víðáttumiklum alheimi hefur breytt heimssýn geimfara sem hafa fengið að sjá hana úr geimnum. Fyrsta mynd bandaríska loftslagsgervitunglsins Deep Space Climate Observatory (DSCOVR) af allri jörðinni gefur öðrum jarðarbúum tækifæri til að nálgast þá upplifun. 

Myndin var tekin með EPIC-myndavél gervitunglsins úr um það bil 1,6 milljón kílómetra fjarlægð 6. júlí. Á henni sjást Norður- og Suður-Ameríka. Hún er samsett úr þremur myndum en myndavél gervitunglsins tekur myndaraðir í tíu mismunandi bylgjulengdum ljóss. Í myndina af jörðinni notaði það rauðar, grænar og bláar myndir.

Þegar gervitunglið hefur vísindaathuganir sínar af alvöru mun það senda nýjar myndir af jörðinni daglega. Þannig verður í fyrsta skipti hægt að fylgjast með breytingum á milli daga á allri jörðinni. Þessar myndir verða birtar á sérstakri vefsíðu frá og með september.

Meginmarkmið DSCOVR er að fylgjast með sólvindum til að hægt sé að spá fyrir um sólstorma. Það er staðsett í svonefndum Lagrange-punkti á milli sólarinnar og jarðarinnar. Samspil þyngdarkrafts jarðarinnar og sólarinnar gerir farinu kleift að ferðast samhliða jörðinni um sólkerfið og gera athugarnir bæði á henni og sólinni. Bandaríska geimvísindastofnunin NASA, Haf- og loftslagsstofnunin NOAA og bandaríski flugherinn reka gervitunglið sameiginlega.

Frétt á vef NASA um gervitunglið 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert