Lyf gæti hægt á Alzheimers

Reynt verður að finna leiðir til að sporna við myndun …
Reynt verður að finna leiðir til að sporna við myndun trefjótts slíms prótína í heila Alzheimersjúklinga. Ljósmynd/NASA

Vísbendingar eru um að lyf sem lyfjafyrirtækið Eli Lilly er að þróa geti mögulega hægt á framrás Alzheimersjúkdómsins um þriðjung. Fyrstu niðurstöðum tilrauna hefur verið tekið með hóflegri bjartsýni en frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar á virkni lyfsins.

Lyfið nefnist solanezumab en forsvarsmenn lyfjafyrirtækið kynntu það á alþjóðlegri ráðstefnu Alsheimersamtaka. Miklar vonir hafa verið bundnar við lyfið í gegnum tíðina en rannsóknir á því sem lauk árið 2012 virtust ekki benda til þess að það stæði undir þeim væntingum.

Fulltrúar Eli Lilly segjast hins vegar hafa litið betur á rannsóknargögnin og komist að því að lyfið virtist gagnast þeim sem væru á fyrstu stigum sjúkdómsins. Tilraunir með það voru því framlengdar með áherslu á þennan hóp. Það virðist geta hægt á framrás sjúkdómsins um þriðjung.

Fram að þessu hefur aðeins verið hægt að veita meðferð við einkennum sjúkdómsins án þess að koma í veg fyrir dauða heilafrumna sem hann veldur. Solanezumab er sagt eyða óeðlilegri útfellingu prótína í heilanum sem hafa verið nefnd mýlildi á íslensku. Talið er að skán þeirra á milli taugafruma valdi hrörnun og dauða heilafruma.

„Þetta er önnur vísbending um að solanezumab hafi áhrif á undirliggjandi sjúkdóminn. Við teljum að það sé möguleiki á að solanezumab verði fyrsta lyfið sem hefur áhrif á sjúkdóminn á markaði,“ segir Eric Siemers frá rannsóknarstofu fyrirtækisins við breska ríkisútvarpið BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert