Endalok Google+?

Google+ hefur ekki náð sér á strik.
Google+ hefur ekki náð sér á strik. AFP

Google tilkynnti í dag að fyrirtækið hygðist draga úr því að fólk geti notað samfélagsmiðlaprófíla sína til að auðkenna sig á netinu.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að „mikilvægra breytinga“ sé að vænta, til að mynda þær að notendur þurfa ekki lengur Google+ reikning til að skilja eftir ummæli á Youtube.

„Þegar við hleyptum Google´af stokkunum ætluðum við að gera fólki kleift að uppgötva, deila og tengjast á Google eins og það gerir í raunheimum,“ sagði Bradley Horowitz, einn yfirmanna Google í bloggfærslu. „Þó svo að okkur hafi tekist ágætlega upp með ýmislegt þá eru nokkur atriði sem við þurfum að endurhugsa.“

Google+ var hleypt af stokkunum fyrir fjórum árum sem samfélagsmiðli sem átti að gera notendum kleift að nota einn aðgang að allri þjónustu fyrirtækisins. „Fólk hefur sagt okkur að líf þess hafi orðið mun auðveldara þegar það gat notað einn Google-aðgang til að nálgast allt Google dótið sitt,“ segir Horowitz.

„En við heyrðum líka að það væri ekkert vit í að nota Google+ sem aðgang að öllum vörum Google.“ Youtube verður meðal fyrstu vara Google sem segir skilið við Google+, en fyrirtækið hefur hægt og rólega vikið af þeirri braut að tengja vörur sínar og þjónustu við samfélagsmiðilinn.

Google+ var hleypt af stokkunum í júní árið 2011 til að narta í hælana á Facebook, en er enn þann dag í dag aðeins með brotabrot af notendafjölda Facebook.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert