Vilja banna sjálfvirk drápsvélmenni

Tortímandinn er dæmi um mjög þróað vélmenni sem er sjálft …
Tortímandinn er dæmi um mjög þróað vélmenni sem er sjálft fært um að beita banvænu afli. Tortímandinn er þó bæði hreinn uppspuni og dæmi um mjög háþróað vélmenni af þeirri gerð. AFP

Elon Musk, forstjóri Tesla, Stephen Hawking og Steve Wozniak, annar stofnenda Apple, eru meðal þeirra sem vilja banna sjálfvirk drápsvélmenni áður en þau koma fram á sjónarsviðið. Um 1.000 sérfræðingar á sviði vélmennaþróunar og gervigreindar skrifuðu í dag undir áskorun þar sem þjóðir heims eru hvattar til að láta af þróun vélmenna sem í framtíðinni gætu sjálf tekið ákvörðun um að beita banvænu afli.

Frétt mbl.is: Hver fer í fangelsi þegar róbóti fremur stríðsglæpi?

Í frétt The Guardian segir að í áskoruninni segi að „gervigreind hefur náð því stigi að notkun banvænna sjálfvirkra vélmenna er möguleg á næstu árum frekar en áratugum, þó svo þau kunni að brjóta í bága við alþjóðalög. Þróun þeirra hefur verið kölluð þriðja stökkið í vopnaþróun, á eftir púðri og kjarnorkuvopnum.

Nýtt vopnakapphlaup

Fólkið á bakvið áskorunina heldur fram að gervigreind geti vissulega verið notuð til að gera vígvelli öruggari fyrir hermenn, en að nota vopnuð vélmenni sem geta athafnað sig án aðkomu mannsins myndi auka líkur á því að til vopnaðra átaka kæmu, sem hefði í för með sér frekara mannfall en þekkist.

Ef einn her kæmi sér upp vélmennum með þessa eiginleika myndi það að öllum líkindum hefja vopnakapphlaup á pari við kjarnorkuvopnakapphlaupið í Kalda stríðinu. Þessi vélmenni væru hins vegar ólík kjarnorkuvopnum að því leyti að til að framleiða þau þarf ekki hráefni sem erfitt er að komast yfir og því erfitt að hafa eftirlit með þeim.

Viðfangsefnið er Íslendingum ekki alls ókunnugt, því Gunnar Dofri, lögfræðingur og blaðamaður mbl.is, skrifaði meistararitgerð um lögmæti vélmenna af þeirri gerð sem vonir standa til að verði bönnuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert