Obama vill hröðustu tölvu heims

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. AFP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur gefið út tilskipun þess efnis að Bandaríkin skuli hafa lokið við smíði heimsins hröðustu tölvu fyrir árið 2025.

Ofurtölvan sem um ræðir yrði tuttugu sinnum hraðvirkari en heimsins hraðasta tölva í dag, sem er í Kína, samkvæmt því sem fram kemur á vef BBC. Hún myndi því geta innt af hendi eina trilljón útreikninga á sekúndu, eða milljarð milljarða, en slíkur hraði er kallaður „exaflop“ í tölvugeiranum og yrði tölvan fyrsta tölva heims til að ná slíkum hraða.

Sérstakur starfshópur verður skipaður til að annast þær rannsóknir og margvíslega vinnu sem til þarf, svo markmið forsetans komist í framkvæmd. Mun hópurinn heita NSCI eða „National Strategic Computing Initiative“.

Til að setja getu tölvunnar í samhengi má ímynda sér allt frá hundrað milljón og upp í milljarð venjulegra fartölva og leggja hraða þeirra saman, eins og fram kemur á Washington Post.

Breytingar á mörgum sviðum

Ljóst er að tilkoma tölvu með slíkt bolmagn muni hafa umtalsverðar breytingar í för með sér á ýmsum sviðum. Með ofurtölvunni verður meðal annars hægt að framkvæma útreikninga og líkja eftir flóknum aðstæðum í svokölluðum hermi, auk þess sem hún mun koma Bandaríkjamönnum að gagni við vísindalegar rannsóknir af ýmsu tagi.

Einnig er vonast til þess að hana megi nýta við greiningu veðurmælinga, með það að markmiði að spá með nákvæmari hætti um veðrið, eða við greiningu krabbameins með því að greina röntgenmyndir af sjúklingum.

Greint er frá því í bloggfærslu frá Hvíta húsinu að tölvan muni líka vera vísindamönnum geimrannsóknarstofnunarinnar NASA innan handar við hönnun straumlínulagaðra farartækja, en með henni verður hægt að mæla og greina loftmótstöðu og ókyrrð í loftinu með nákvæmari og skilvirkari hætti en fram til þessa.

Áætlnunin um smíði tölvunnar er mjög í takt við tímann, að mati Richards Kenway, sérfræðings við Edinborgarháskóla. Þar tvinnast saman metnaðurinn fyrir því að forrita nýjan tölvubúnað og bæta læsi og greiningargetu á gögnum, sérstaklega gögnum í miklu magni.

Hann segir tölvuna munu hraða á framþróun í lyfjageiranum og á þá nánar tiltekið við lyf sniðin að þörfum einstaklinga.

„Lyf dagsins í dag eru sniðin að meðalmanneskjunni,“ útskýrir hann. „Þau virka ágætlega fyrir suma en ekki fyrir aðra. Stóra áskorunin í lyfjageiranum er að færa okkur frá „meðallyfjum“ og í átt að lyfjum sem taka mið af einstaklingnum, því þá má taka tillit til erfðafræðilegra eiginleika og lífsstíls viðkomandi.“

Tilkoma tölvunnar kynni auk þessa að hafa í för með sér breytingar á kortlagningu loftslagsbreytinga til lengri tíma, að mati Marks Parsons, annars sérfræðings í Edinborg, sem ræddi við BBC. Í dag reyna vísindamenn að kortleggja loftslagsbreytingar næstu ár en nákvæmni slíkrar vinnu er að ýmsu leyti takmörkuð.

Hraðasta tölvan er í Kína

Í dag er hraðasta tölva heims í höndum Kínverja. Ofurtölvan, sem ber heitið Tianhe-2, er hýst í tölvumiðstöð ríkisins í Guangzhou. Hún vinnur á hraða sem mælist 33.86 svokölluð „petaflop“, sem er næstum því tvöfalt meira en næsthraðasta tölvan, sem er bandarísk.

Ekki fer milli mála að framangreind áætlun Bandaríkjamanna í þessum efnum er tilraun til að bjóða forystu Kínverja birginn, að mati Parsons.

„Bandaríkin hafa áttað sig á því að ef þau vilja halda velli í kapphlaupinu muni það kosta fjárfestingu af þeirra hálfu,“ sagði hann í samtali við BBC.

60 milljón punda rafmagnsreikningur

Ljóst er að fjöldi áskorana verður á vegi hópsins sem falið hefur verið að hanna tölvuna. Margra ára rannsóknar- og þróunarvinna bíður þeirra sem hann skipa.

Einna helst má nefna að einstakir hlutar tölvunnar munu þurfa að vera hagkvæmari í orkunýtingu en tíðkast í dag, en ætla má að rafmangsþörf tölvunnar verði gríðarleg.

„Ég mundi segja að þeir stefni á hér um bil 60 megavatta orkuþörf. Ég get ekki ímyndað mér að þeir nái að fara niður fyrir það,“ segir Parsons. Til samanburðar er orkuþörf álvers Norðuráls í Grundartanga á bilinu 500 til 550 megavött, samkvæmt grein á mbl.is. Rafmagnsreikningurinn mun ná umtalsverðum hæðum á bandarískum markaði. „Það munu fara að minnsta kosti 60 milljónir punda á ári bara í rafmagnskostnað,“ segir hann, en það jafngildir hér um bil 12,5 milljörðum íslenskra króna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert