Suður-Ameríka ferst ekki í september

Smástirnið Vesta.
Smástirnið Vesta. Mynd/NASA

Heimurinn mun ekki farast á næstu dögum, vikum, árum né áratugum. Að minnsta kosti ekki af völdum loftsteins. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá NASA, bandarísku geimvísindastofnuninni, en um er að ræða viðbrögð við internetorðróm um yfirvofandi árekstur einhvern tímann milli 15. -28. september.

Í yfirlýsingu stofnunarinnar kemur fram að líkurnar á því að tortímandi loftsteinn skelli á jörðinni á næstu 100 árum séu um það bil 0,01%.

Orðrómurinn snérist um að villuráfandi lofsteinn myndi koma niður einhvers staðar nærri Puerto Rico og þurrka út stóran hluta Mið- og Suður-Ameríku.

„Það eru engin vísindaleg gögn - ekki vottur af sönnunargögnum - sem benda til þess að loftsteinn eða annað fyrirbæri af himnum ofan muni skella á jörðinni þessa daga,“ segir Paul Chodas, sem fer fyrir þeirri deild sem hefur eftirlit með geimfyrirbærum í næsta nágrenni við jörðina.

„Ef það væru einhver fyrirbæri nógu stór til að valda eyðileggingu af þessu tagi í september, þá værum við búin að sjá til þeirra.“

Geimvísindastofnunin reyndist hafa rétt fyrir sér þegar hún spáði því að heimsendir myndi ekki eiga sér stað 21. desember 2012, þegar tímatal Maya leið undir lok. Hins vegar ber að geta þess að meðal þeirra fimm loftsteina sem munu fara hvað næst jörðu er einn sem verður í 1,6 milljón km fjarlægð 21. ágúst. Það er í dag.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert