Fiðrildið breiðir út vængi sína

Hubble-geimsjónaukinn hefur fært mönnum ægifagrar myndir af undrum alheimsins í aldarfjórðung. Nýjasta mynd hans er af Fiðrildaþokunni, eða Tvístrókaþokunni, litríkri hringþoku deyjandi stjörnu sem myndar stróka sem líkjast helst vængjum fiðrildis.

Þegar stjörnur á stærð við sólina enda lífsskeið sitt varpa þær frá sér ystu lögum sínum og mynda svonefndar hringþokur, gasský í kringum nakinn kjarna stjörnunnar sem lýsir gasið upp með útfjólubláu ljósi. Litadýrðina má rekja til mismunandi og misheitra gastegunda sem stjarnan framleiddi á langri ævi sinni. 

Tvístrókaþokan er dæmi um slíka hringþoku en munurinn á henni og öðrum er að í miðju hennar er tvístirnakerfi, að því er kemur fram á Stjörnufræðivefnum.

Stjörnurnar tvær í Tvístrókaþokunni eru álíka efnismiklar og sólin okkar. Minni stjarnan er 0,6 til 1,0 sólmassar en stærri stjarnan er 1,0 til 1,4 sólmassar. Stærri stjarnan er að deyja og hefur varpað frá sér efninu sem sést á myndinni en fylgistjarnan hefur þegar gengið í gegnum sama ferli og er nú hvítur dvergur.

Mynstrin í „vængjum“ Tvístrókaþokunni má rekja til snúnings stjarnanna tveggja um sameiginlega massamiðju. Þyngdarkraftur hvíta dvergsins vindur upp á efnið sem hin stjarnan varpar frá sér. Vængirnir eru enn að breiða úr sér og hafa stjörnufræðingar reiknað út að þokan sé aðeins um 1.200 ára gömul.

Innan í vængjunum má sjá bláa bletti sem liggja út frá kerfinu eins og æðar. Þessir blettir eru gasstrókar sem streyma út í geiminn á yfir milljón km hraða á klukkustund.

Frétt á Stjörnufræðivefnum

Grein um hringþokur á Stjörnufræðivefnum

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert