Höf jarðar rísa hratt

Yfirborð sjávar hefur hækkað um rúma sjö sentímetra að meðaltali á heimsvísu frá árinu 1992 vegna hlýnunar sjávar og bráðnunar íss á landi. Hækkunin virðist hraða á sér og mun sjávarstaðan hafa hækkað um metra fyrir lok þessarar aldar ef fram fer sem horfir, samkvæmt rannsóknum vísindamanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA.

Í þúsundir ára hefur yfirborð sjávar verið nokkuð stöðugt og hafa menn komið sér fyrir á strandsvæðum um alla jörðina. Undanfarin fimmtíu ár hefur yfirborðið hins vegar byrjað að hækka hratt vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Frá upphafi 20. aldar hefur yfirborðið hækkað um tuttugu sentímetra og allt bendir til þess að það hækki sífellt hraðar.

Athuganir vísindamanna NASA með gervihnöttum undanfarin 23 ár benda til þess yfirborð sjávar sé alls ekki jafnt yfir alla jörðina. Munurinn á sjávarstöðunni frá einum stað til annars getur numið allt að tveimur metrum. Hækkunin sem nú á sér stað dreifist heldur ekki jafnt yfir alla jörðina. Þannig hefur yfirborð sjávar hækkað um 25 sentímetra á sumum stöðum en annars staðar, eins og á vesturströnd Bandaríkjanna, hefur yfirborð sjávar hins vegar fallið. 

Vísindamenn telja að náttúrulegar sveiflur, eins og El niño og áratugasveifla í Kyrrahafi (e. Pacific Decadal Oscillation), og hafstraumar eyði nú tímabundið út áhrifum hnattrænnar hlýnunar í Kyrrahafi. Þegar þeim sleppi geti yfirborð sjávar við vesturströndina hækkað hratt á næstu tveimur áratugum.

„Fólk verður að skilja að plánetan er ekki bara að breytast, hún er breytt,“ sagði Tom Wagner, sérfræðingur NASA í hafísmálum.

Freista þess að kortleggja bráðnunina á Grænlandi

Stærsti óvissuþátturinn í spám um þróun yfirborðs sjávar er hversu hratt ísbreiðurnar á heimsskautunum munu bráðna með hækkandi hitastigi á jörðinni. Vísindamenn segja að þriðjungur af hækkun yfirborðs sjávar sé til komin vegna þess að höfin þenjast út eftir því sem þau hlýna, þriðjungur sé vegna bráðnunar heimsskautaíssins og þriðjungur vegna bráðnandi jökla á landi.

Grænlandsjökull einn og sér getur haft gríðarleg áhrif á sjávarstöðu jarðar. Hann hefur bráðnað hratt undanfarna áratugi en hyrfi hann allur myndi yfirborð sjávar hækka um sex metra. Bráðnunartímabilið á Grænlandsjökli varir nú um sjötíu dögum lengur á ári en það gerði við upphaf 8. áratugar síðustu aldar.

Það er ekki bara hlýnun andrúmsloftsins sem bræðir jökulinn heldur einnig hlýnandi sjór sem kemst að honum við strandlengjuna og í gegnum neðansjávarsprungur. Til þess að skilja betur þau áhrif sem hlýr sjór hefur á bráðnunina hefur NASA hrundið af stað OMG-verkefninu en því er ætlað að kortleggja sjávarbotninn við Grænland og hafstrauma.

Verkefnið mun standa yfir í sex ár en bæði skip og flugvélar verða notaðar til þess að kanna víðáttumikla strandlengju Grænlands og skriðjöklana sem ganga út í ótal firði hennar. Með því vonast menn til þess að geta spáð betur fyrir um hversu hratt bráðnunin mun eiga sér stað í framtíðinni.

Frétt á vef NASA um hækkun yfirborðs sjávar

Frétt á vef NASA um OMG-verkefnið á Grænlandi

Frétt The Guardian af sjávarstöðu jarðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert