Meðvitaður um áhyggjur fólks

Forsetinn heimsækir Alaska á mánudag.
Forsetinn heimsækir Alaska á mánudag. AFP

Barack Obama hefur varið ákvörðun stjórnvalda vestanahafs um að heimila Shell að bora eftir olíu í Chukchi-hafi. Ákvörðunin hefur mætt háværum mótmælum meðal umhverfisverndarsinna, sem saka forsetann um hræsni enda hafi hann talað fyrir róttækum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum á síðustu misserum.

Þá styttist óðum í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París, þar sem þess verður freistað að hamra saman alþjóðlegt samkomulag um aðgerðir.

„Ég veit að það eru Bandaríkjamenn sem hafa áhyggjur af borunum olíufyrirtækja á umhverfislega viðkvæmu hafsvæði,“ sagði Obama í vikulegu ávarpi sínu og benti á að samningar um boranir hefðu verið undirritaðir áður en hann tók embætti.

„Ég deili áhyggjum fólks vegna borana undan ströndum landsins,“ sagði forsetinn. „Ég man greinilega eftir BP-olíuleikanum. Það er nákvæmlega þess vegna sem ríkisstjórn mín hefur unnið að því að tryggja að þessar tilraunaboranir fari fram samkvæmt ítrustu kröfum.“

Forsetinn ítrekaði að leyfi væru ekki bara gefin út si svona.

Á mánudag hefst opinber heimsókn Obama til Alaska, sem er stærsta ríki Bandaríkjanna og hefur þegar fengið að fengið að kenna á áhrifum loftslagsbreytinga, m.a. bráðnun jökla og sífrera.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert