Tæplega 2 metra sporðdreki

Ljósmynd/Yale-háskóli

Vísindamenn hafa fundið steingerving risavaxins sjávarsporðdreka sem var uppi fyrir 467 milljónum ára. Steingervingurinn fannst við uppgröft í Iowa í Bandaríkjunum.

Dýrið er kallað Pentecopterus decorahensis, í höfuðið á fornu grísku skipi. Sporðdrekinn gat orðið um 1,8 m að lengd.

Skepnan hafði nokkurs konar hjálm á höfði, mjóan skrokk og stóra útlimi til að ná til bráðar sinnar. Þá hafði hún einnig nokkurs konar árar í stað fóta sem hún notaði til að synda. Talið er að sjávarsporðdrekinn hafi verið efst í fæðukeðju hafsins á sínum tíma. 

„Þessi nýja tegund er stórfurðuleg,“ segir James Lamsdell, við Yale-háskóla, sem leiddi rannsóknina á steingervingnum. „Árin, sum sé fóturinn sem hún notaði til að synda, er algjörlega einstök. Einnig höfuðlagið. Og svo stærðin!“

Steingervingurinn er sagður mjög vel varðveittur og því hægt að rannsaka hann auðveldlega.  Sjávarsporðdrekar eru forfeður kóngulóa nútímans.

Greint er frá niðurstöðum rannsóknarinnar í BMC Evolutionary Biology.

Frétt Discovery

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert