Fyrsti Daninn í geimnum

Danski geimfarinn Andreas Mogensen veifar á leiðinni í Soyuz-geimfarið sem …
Danski geimfarinn Andreas Mogensen veifar á leiðinni í Soyuz-geimfarið sem flytur hann og félaga hans til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. AFP

Þremur geimförum var skotið á loft í Soyuz-geimfari frá Baikonur-skotpallinum í Kasakstan í nótt. Á meðal þeirra er Andreas Mogensen, fyrsti Daninn sem heldur út í geim. Hann mun dvelja í tíu daga í geimnum, þar á meðal í Alþjóðlegu geimstöðinni, og sinna ýmsum tilraunum á meðan.

Auk Mogensen eru Rússinn Sergei Volkov og Kasakinn Aidyn Aimbetov um borð í geimfarinu sem hringsólar nú um jörðina á 28.000 kílómetra hraða á klukkustund. Þeir munu fara 36 hringi í kringum jörðina áður en þeir ná í skottið á Alþjóðlegu geimstöðinni og leggjast að henni.

Leiðangur þremenninganna nefnist Iriss en markmiðið með honum er að prófa nýja tækni og aðferðir við að stjórna flóknum aðgerðum í geimnum. Mogensen, sem er fulltrúi evrópsku geimstofnunarinnar ESA, mun þannig stjórna þremur könnunarjeppum frá geimstöðinni, rannsaka þrumuveður, hreinsa vatn með nýrri örtæknifilmu sem líkir eftir frumum sem finnast í öllum lífverum á jörðinni, prófa sérhannaðan galla sem á að draga úr bakverkjum og heyrnatól sem gerir stjórnendum á jörðu niðri kleift að fylgjast með störfum hans.

Frétt ESA af leiðangri Mogensen og félaga

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert