Verksmiðja sem endurvinnur stjörnur

Risavaxna geimþokan Gum 56 er ein af fjöldamörgum endurvinnslustöðvum alheimsins þar sem innviðum eldri kynslóðar stjarna er breytt í nýjar stjörnur sem lýsa upp þokuna. Sjónauki evrópsku stjörnustöðvarinnar á Suðurhveli (ESO) hefur fangað þokuna á mynd, fegurðarinnar vegna.

Stjörnur hafa orðið til úr gasi þokunnar í milljónir ára en sama efni skilar sér til baka þegar eldri stjörnur deyja hægt og rólega eða springa í tætlur, að því er segir í frétt á vef ESO. Þokan heitir Gum 56 — einnig kölluð IC 4628 og Rækjuþokan — og er nefnd eftir ástralska stjörnufræðingnum Colin Stanley Gum sem birti skrá yfir röfuð vetnisský árið 1955. Hún er í um 6.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum, þar sem hún er um fjórum sinnum stærri en fullt tungl á himninum

Í þokunni eru ekki aðeins margar nýfæddar stjörnur, heldur er svæðið enn uppfullt af ryki og gasi sem síðar verður að nýjum kynslóðum stjarna. Stjörnumyndunarsvæðin í þokunni birtast okkur sem þétt ský. Efnið sem myndar þessar nýju stjörnur innihalda leifar efnismestu stjarnanna úr eldri kynslóð sem fæddist í skýinu en eru þegar horfnar af sjónarsviðinu. Þannig heldur endurvinnslan áfram.

Myndin var tekin með Wide Field Imager á 2,2 metra MPG/ESO sjónaukanum fyrir ESO Cosmic Gems-verkefnið sem snýst eingöngu um að útbúa fallegar ljósmyndir af himingeimnum í þeim tilgangi að miðla vísindum til almennings. Verkefnið fær eingöngu úthlutuðum þeim tíma í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar.

Frétt á vef ESO á íslensku um myndina af Rækjuþokunni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert