Vinna eldsneyti úr loftinu

Bílar dæla koltvíoxíði út í loftið. Erlend fyrirtæki vilja vinna …
Bílar dæla koltvíoxíði út í loftið. Erlend fyrirtæki vilja vinna olíu úr gróðurhúsalofttegundinni. Wikipedia

Að minnsta kosti tvö fyrirtæki, eitt í Þýskalandi og annað í Kanada, þróa nú aðferðir til þess að fanga koltvíoxíð úr andrúmsloftinu og vinna dísilolíu úr því. Takist að gera aðferðina hagkvæma væri hægt að jafna út kolefnisfótspor bifreiða sem nota slíkt eldsneyti þangað til endurnýjanlegir orkugjafa taka alfarið við.

Sú aðferð að vinna eldsneyti úr koltvísýringi er ekki ný af nálinni og beitir fyrirtækið Carbon Recycling International henni meðal annars til að framleiða metanól úr útblæstri jarðvarmavirkjunarinnar í Svartsengi. 

Tæknin við að fanga kolefnið úr andrúmsloftinu er hins vegar ný og telja fyrirtækin Sunfire í Þýskalandi og Carbon Engineering í Kanada að hún sé nú orðin nógu ódýr til að vera hagkvæm. Kanadíska fyrirtækið hefur byggt tilraunastöð sem sogar eitt til tvö tonn af koltvísýringi úr loftinu og breytir honum í 500 lítra af dísilolíu á dag.

Aðferðin krefst mikillar raforku en sé endurnýjanleg orka notuð til þess að knýja vélar fyrirtækjanna væri hægt að framleiða kolefnishlutlaust eldsneyti með henni. Útblástur bifreiða sem brenndu olíunni myndi þannig aðeins skila kolefni út í andrúmsloftið sem hafði áður verið þar til staðar.

Verði þetta fýsilegt gæti það auðveldað mönnum þau umskipti sem nauðsynleg eru til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hratt til þess að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga á jörðinni.

Frétt BBC af vinnslu eldsneytis úr koltvíoxíði 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert