Ólafur þróar sólarhleðslutæki

Hjólreiðarstúlka með frumgerð Litlu sólar hleðslutækisins.
Hjólreiðarstúlka með frumgerð Litlu sólar hleðslutækisins. Inka Recke/Litla sólin

Listamaðurinn Ólafur Elíasson leitar nú að fjármögnun á hópfjármögnunarsíðunni Kickstarter fyrir sólarknúið hleðslutæki fyrir síma. Tækið á að vera tilbúið á markað í mars 2016 og er það sagt taka fimm klukkustundir til þess að fullhlaða síma með sólarorku.

Hleðslutækið er samstarfsverkefni Ólafs og verkfræðingsins Frederiks Ottesen. Þeir unnu saman að verkefninu Litlu sólinni fyrir nokkrum árum en það var sólarknúið LED-ljós. Nú hefur Ólafur sett af stað Kickstarter-söfnun til að afla fjár til að koma símahleðslutæki sem byggir á sama grunni á markað.

„Það sem er svo frábært við sólartækni er að hún tekur sólina, sem er fyrir okkur öll, og gerir okkur öllum hana aðgengilega, óháð því hvar við erum stödd í heiminum. Sólin nærir, hún tengir saman og veitir okkur mátt. Með því að nota sólarljós tengi Litlu sólar hleðslutækið okkur hvort við annað í gegnum farsímana okkar,“ segir á síðunni.

Nú þegar mánuður er eftir að söfnuninni hafa rúmlega 44.000 af þeim 50.000 evrum sem þeir félagar settu markið á safnast með aðstoð hátt í fjögur hundruð fjárfesta.

Kickstarter-söfnun Ólafs Elíassonar fyrir sólarhleðslutækið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert