HiRise á hálendi Íslands

HiRise-teymið á miðhálendinu með Hofsjökul í baksýn.
HiRise-teymið á miðhálendinu með Hofsjökul í baksýn.

Hópur vísindamanna sem starfar við HiRise-myndavél MRO-geimfars bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sem gengur á braut um Mars var staddur hér á landi við fundarhöld og vettvangsferðir í síðustu viku. Matthew Golombek, einn vísindamannanna, segir hópinn sjá margar hliðstæður á milli jarðfræði Íslands og Mars.

Ísland hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir þá sem rannsaka rauðu reikistjörnuna Mars enda þykja töluverð líkindi með þeim jarðmyndunum sem hér er að finna og þeirra sem menn reyna að ráða í á nágrannareikistjörnunni.

Golombek segir að vísindateymi HiRise hittist tvisvar á ári til þess að bera saman bækur sínar. Yfirleitt felur önnur ferðin í sér vettvangsferðir og varð Ísland fyrir valinu að þessu sinni. Hópnum fannst öllum afar spennandi að koma hingað en hann dvaldi hér í um viku.

„Hvað varðar eldfjallavirkni og gliðnun eru ekki margir staðir sem eru betri. Eldfjallavirkni og basalthraun sem er ríkjandi virknin á Íslandi er afar algegn á Mars og við teljum að Mars sé að mestu leyti basaltpláneta. Við sjáum margar hliðstæður á milli þeirra sérkenna sem við sjáum hér og á Mars. Þannig að þetta er frábær staður til að svipast um,“ segir Golombek.

Almenningur getur valið viðfangsefnin

HiRise er eitt þeirra tækja sem eru um borð í brautarfarinu Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) sem komst á braut um Mars árið 2006. Það er 0,5 metra breiður sjónauki, sá stærsti sem notaður hefur verið í leiðöngrum til reikistjarnanna. Myndirnar sem hann sendir til jarðar eru í svo hárri upplausn að á þeim er hægt að greina fyrirbæri sem eru innan við metri á stærð.

„Það hefur opnað nýjan heim vísindarannsókna sem við höfum ekki getað gert áður. Upplausnin sem við höfðum haft hafði verið næstum því tíu sinnum minni. Við getum ráðið jarðfræði staðanna, eldfjallavirkni, afurðir eldfjalla og tegund þeirra sem við höfum ekki geta greint áður. Við sjáum sandöldur og þær hreyfast með vindinum. Við getum fundið lendingarstaði áður en við lendum könnunarjeppum, fundið hættur þar og komið auga á vísindalega áhugaverða staði. Þetta er afar mikilvægt verkfæri fyrir könnun NASA á Mars,“ segir Golombek sem sá meðal annars um að finna lendingarstað fyrir könnunarjeppann Curiosity.

Með HiRise hafa menn meðal annars fundið merki um að læki vatns í hlíðum Mars sem Golombek segir afar spennandi. Ætli menn einhvern tímann að senda geimfara til Mars muni þeir augljóslega þurfa á vatnsuppsprettum að halda.

HiRise er stundum nefnd „myndavél fólksins“ vegna þess að almenningi gefst kostur á að senda inn tillögur að stöðum til að mynda með sjónaukanum á vefsíðu hans. Golombek segir að fjöldi ábendinga hafi borist með þessum hætti.

„Ef einhver hefur áhuga á að taka myndir af ákveðnum stöðum á Mars í mikilli upplausn þá getur hann farið á HiRise-vefsíðuna og bent á hann. Líkurnar eru nokkuð góðar á að sú mynd verði á endanum tekin!“ segir Golombek.

Vefsíða HiRise er sú eina á vegum bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA sem er aðgengileg á íslensku. Hana má sjá hér í þýðingu Sævars Helga Bragasonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og ritstjóra Stjörnufræðivefsins.

Mynd HiRise frá því í apríl á þessu ári sem …
Mynd HiRise frá því í apríl á þessu ári sem sýnir frost í giljum á norðlægum sléttum Mars. AFP

Mæla „Marsskjálfta“ með nýju lendingarfari

Nokkri leiðangrar eru fyrirhugaðir til Mars á næstu árum. Evrópska geimstofnunin ESA ætlar að senda brautarfarið ExoMars þangað strax á næsta ári en það verður búið sjónauka í svipuðum stíl og HiRise.

Golombek vinnur sjálfur að undirbúningi InSight-leiðangurs NASA sem verður skotið á loft í mars á næsta ári. Það er lendingarfar sem mun nota jarðskjálftamæli til að kanna „Marsvirkni“ og mæla jarðhita til þess að fá gleggri mynd af innviðum Mars.

„Þetta verður í fyrsta sinn sem við lítum á reikistjörnuna í heild sinni. Hversu stór kjarninn er, hvort hann sé bráðinn, hvernig hiti flæðir í gegnum reikistjörnuna, hvernig innviðirnir skiptast í kjarna, möttul og skorpu,“ segir Golombek.

Þá verður HiRise notað til þess að velja lendingarstað fyrir Mars 2020-könnunarjeppann. Honum mun svipa til Curiosity-jeppans sem ekur nú um auðnina á Mars. Nýi jeppinn á hins vegar einnig að safna sýnum sem verða send aftur til jarðar.

Geta svarað grundvallarspurningum með litlum tilkostnaði

Golombek segir öfluga landkönnun nú eiga sér stað á Mars og nú séu spennandi tímar í að rannsaka reikistjörnuna.

„Við sjáum skýr merki um að snemma í sögu sinni, um það leyti sem líf kviknaði hér á jörðinni, hafði Mars fljótandi vatn á yfirborðinu. Eftir því sem við vitum best er fljótandi vatn alger grunnforsenda vatns á jörðinni. Ef menn geta farið til nágrannareikistjörnunnar og kannað hvort að líf hafi kviknað þar geta þeir komist nær þessari grundvallarspurningu hvort við séum ein í alheiminum, hvort að líf kvikni hvar sem fljótandi vatn er til staðar eða er eitthvað sérstakt við það sem gerðist á jörðinni? Við getum svarað þeirri spurningu á vísindalegan hátt með tiltölulega litlum tilkostnaði miðað við margt annað sem við leggjum fé í!“ segir Golombek og hlær.

Vefsíða HiRise-myndavélarinnar á íslensku

Hér má senda inn ábendingar um staði á Mars til að mynda með HiRise

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert