Fyrsta úttektin úr frægeymslunni á Svalbarða

Frægeymslan geymir hvers kyns fræ neðanjarðar á Svalbarða.
Frægeymslan geymir hvers kyns fræ neðanjarðar á Svalbarða. Sanjay Acharya

Rannsóknarmiðstöð í Mið-Austurlöndum hyggur á fyrstu úttektina úr fræbankanum á Svalbarða sem ætlað er að geyma fræ alls staðar að úr heiminum og standa þannig vörð um líffræðilega fjölbreytni.

Nú verður í fyrsta sinn gerð úttekt úr geymslunni, samkvæmt vef Reuters. ICARDA, alþjóðleg rannsóknarmiðstöð landbúnaðarrannsókna á þurrum svæðum, er að kalla aftur til sín um 116 þúsund sýni sem hún lagði inn í geymsluna. Hún var til húsa í Aleppo í Sýrlandi þar sem borgarastríðið í landinu setti strik í reikninginn en hún hefur nú flutt til Beirút í Líbanon.

Margar tegundir sem finna má í safni miðstöðvarinnar þola þurrka vel og eru taldar geta nýst við að þróa nýjar tegundir sem hægt væri að rækta á þurrum svæðum þegar áhrifa fer að gæta af hnattrænni hlýnun.

Fræbankinn á Svalbarða hefur stundum verið kallaður „dómsdagsgeymslan“ en margir sáu hlutverk hans fyrst og fremst fyrir sér sem neyðarúrræði ef meiriháttar áfall yrði á jörðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert