Uppgötvun NASA á Mars vekur forvitni

Mynd HiRise-myndavélar Mars Reconnaissance Orbiter af yfirborði Mars. Myndin tengist …
Mynd HiRise-myndavélar Mars Reconnaissance Orbiter af yfirborði Mars. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. www.uahirise.org

Ný og meiriháttar vísindauppgötvun á Mars sem bandaríska geimvísindastofnunin NASA ætlar að kynna síðar í dag hefur vakið mikla forvitni og vangaveltur. Líklegt er talið að tilkynningin varði fund á rennandi saltvatni á rauðu reikistjörnunni en það væri fyrsti staðfesti fundurinn á vatni á fljótandi formi á yfirborði Mars.

NASA gaf það út fyrir helgi að meiriháttar vísindauppgötvun sem gerð var með brautarfarinu Mars Reconnaissance Orbiter (MRO) yrði kynnt í dag. Í kjölfarið hafa miklar vangaveltur átt sér stað um hvers eðlis uppgötvunin sé og hafa sumir fjölmiðlar og notendur samfélagsmiðla misst sig í kenningum um að NASA ætli að tilkynna um að líf hafi fundist á reikistjörnunni.

Líklegast er þó hins vegar talið að MRO hafi fundið skýringu á rákum sem sést hafa í bröttum og hlýjum hlíðum við miðbaug Mars. Í færslu á Facebook-síðu Stjörnufræðivefsins kemur fram að allt frá því að rákirnar fundust fyrst hafi menn velt vöngum yfir því hvernig þær hefðu myndast. Líklega hafi þær myndast með saltvatni sem rennur niður hlíðarnar.

Spurningar um líf í fortíð og nútíð

Ýmis könnunarför og jeppar hafa áður fundið vatnsís undir yfirborði Mars og ótalmörg jarðfræðileg ummerki um rennandi vatn en ef MRO hefur í raun fundið fljótandi saltvatn á yfirborðinu væri það í fyrsta skipti sem fljótandi vatn hefur fundist utan jarðarinnar.

Hreint fljótandi vatn getur ekki verið til staðar á yfirborði Mars. Það myndi annað hvort gufa hratt upp vegna lágs loftþrýstings á reikistjörnunni eða frjósa vegna kuldans þar því hitastigið við yfirborðið er yfirleitt um -50°C. Frostmark saltvatns er hins vegar umtalsvert lægra en ferskvatns og því hefur verið tali mögulegt að það gæti verið til á fljótandi formi á yfirborðinu.

Ef fljótandi vatn hefur í raun fundist á yfirborðinu kallar það á spurningar um hvaðan það kemur og hvaða þýðingu það hefur fyrir mögulega tilvist lífs á Mars í fortíð og nútíð. Eins er vatn á yfirborði Mars lykilforsenda mannaðra leiðangra þangað í framtíðinni.

Uppgötvunin verður kynnt á blaðamannafundi sem hefst kl. 15:30 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgja með fundinum á sjónvarpsrás NASA á netinu

Bein lýsing The Guardian af blaðamannafundinum

Frétt CNN um tilkynningu NASA

Á mánudaginn heldur NASA blaðamannafund um nýja uppgötvun um Mars. Uppgötvunin snýst um það sem kallast „síendurteknar...

Posted by Stjörnufræðivefurinn on Saturday, 26 September 2015
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert