Seldu 15 síma á 190.000 krónur stykkið

iPhone 6s og iPhone 6s Plus.
iPhone 6s og iPhone 6s Plus.

Fimmtán símar af gerðinni iPhone 6s seldust upp á tveimur dögum í verslun iSímans á dögunum. Tómas Kristjánsson, eigandi iSímans fór til Bretlands og keypti símana fyrir viðskiptavini sína, eins og fyrri ár. „Það voru alveg frábær viðbrögð og augljóslega mikill áhugi. Við komum með fimmtán stykki og það seldist allt upp á tveimur dögum. Í dag eigum við von á stærri pöntun,“ segir Tómas í samtali við mbl.is.

Tómas segir alltaf mikinn áhuga fyrir nýjum gerðum af iPhone. Þó er oftast minni spenna fyrir svokölluðum s módelum og nefnir Tómas útgáfu iPhone 6 fyrir ári síðan í því samhengi. „Þetta var algjört grín í fyrra. Það var stútfull búð af fólki þegar við mættum með símana og það fór allt sem við fengum á tuttugu mínútum. Það er eins og s módelin séu ekki alveg jafn vinsæl þrátt fyrir að vera yfirleitt góðar uppfærslur. Það er oft nýja útlitið sem heillar.“

Leggja 25 þúsund krónur á hvern síma

Hann segir að iPhone 6s verði á sama verði í iPhone 6 er í búðinni í dag. iPhone 6S símarnir sem seldust upp í búðinni fyrir helgi kostuðu töluvert meira eða 190.000 krónur en þeir eru með 128 gb minni. „Við vorum að leggja svona 25 þúsund krónur á hvern síma. Við erum að hafa fyrir því að sækja símana til Bretlands til að vera fyrstir og því fylgir kostnaður.“

Aðspurður um hvort að nýja gerðin af iPhone standist væntingar svarar Tómas því játandi.

„Myndavélin er virkilega skemmtileg og svo er talað um að hraðamunur eigi að vera mikill á þessum og eldri símum. iPhone 6 nú enginn snigill þannig maður er ekki mikið að taka eftir því. En þessi er fljótari að skanna fingrafarið, ég tók eftir því. En þetta er aðallega myndavélin. Nýi skjárinn er líka svolítið skemmtilegur en það er ekki komið mikið af forritum sem að styðja hann fyrir utan Apple forritin sem fylgja með símanum.“

Símafyrirtækin hefja sölu 9. október

Stærstu símafyrirtækin, Vodafone, Síminn og Nova, hefja ekki sölu á iPhone 6s fyrr en  9.október. „Þeir eru dreifingaraðilarnir hér á Íslandi og þurfa því bara að bíða eftir því að Apple úthluti þeim símum. Við erum ekki dreifingaraðilar og því skiptir í raun og veru ekki hvar við fáum okkar síma,“ segir Tómas. „Við verslum bara af símafyrirtækjunum þegar þetta er komið til landsins en þangað til megum við sprella svona án þess að einhver sé að skipta sér af því.“

Sjá frétt mbl.is: Apple kynnir iPhone 6s og iPhone 6s Plus

iPhone símarnir eru vinsælir hér á landi.
iPhone símarnir eru vinsælir hér á landi. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert