Könnuðu arkitektúr sandkolkrabba

Mynd/Skjáskot af Youtube

Teymi við Háskólann í Melbourne hefur birt rannsókn á því hvernig tegund sandkolkrabba grefur sig niður í sand á hafsbotni og býr sér þar til greni þar sem þeir dvelja dægurlangt áður en þeir halda út á nóttunni og gæða sér á krabbadýrum.

Þegar kolkrabbinn heldur til hvílu finnur hann sér stað á sandbotninum og dælir vatni ofan í sandinn á sama tíma og hann grefur örmunum niður. Með því myndar hann kviksyndi undir sér sem gerir honum auðvelt að draga sig niður í sandinn.

Þar notar hann tvo arma til þess að gera öndunarholu upp á yfirborðið. Að svo komnu gefur hann frá sér slímhimnu sem sest innan í grenið og heldur því stöðugu yfir daginn. Allt ferlið tekur kolkrabbann aðeins um tvær mínútur.

Aðrar tegundir kolkrabba eru þekktar fyrir að grafa sig ofan í sand en þær kasta fremur yfir sig sandi og liggja á yfirborðinu og byggja sér ekki híbýli neðan sjávarbotns. Þessi tegund breytir ekki um lit til þess að fela sig ólíkt mörgum öðrum kolkrabbategundum.

Vísindamennirnir geta sér til um að kolkrabbinn hafi þróast á þessa leið til þess að geta gætt sér auðveldar á ormum og krabbadýrum í setinu sem gæti verið rík en vannýtt uppspretta fæðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert