Óþarfri meðferð dauðvona sjúklinga líkt við pyntingar

Spítali í Myanmar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Spítali í Myanmar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. AFP

Nýbakaðir læknar telja hluta þeirrar meðferðar sem veitt er dauðvona sjúklingum nær pyntingum en lækningum. Þetta kemur fram í viðtalsrannsókn sem framkvæmd var innan Háskólans í Cambridge meðal læknanema (intern) og nýrra lækna (resident) með eins til sex ára starfsaldur á þremur sjúkrahúsum í Bandaríkjunum.

Í rannsókninni er haft eftir læknunum að þeir upplifi veruleg siðferðisleg innri átök þegar þeir endurlífgi ítrekað sjúklinga sem eigi sér enga lífsvon og búi við verulega skert eða engin lífsgæði. Í sumum tilvikum sé slíkt gert gegn fyrri óskum sjúklingsins, af aðstandanda sem geti verið fjarskyldur og ekki viðstaddur. Fjölskyldumeðlimir eigi til að taka ákvarðanir byggðar á samviskubiti eða því að þeir geti ekki sleppt viðkomandi - sérstaklega ef aðstandendur þurfa ekki að horfa upp á viðkomandi kveljast.

Einnig kemur fram að unglæknarnir upplifi sig máttlausa til þess að hafa nokkur áhrif á framgang meðferðarinnar þar sem þeir séu undirgefnir hærra settum læknum á spítalanum. Lýst er að því fjær sem læknirinn sé í keðjunni frá hjúkrunarfræðingum sem framkvæmi meðferðina og unglækna og áfram til yfirlækna því auðveldara verði að réttlæta áframhaldandi meðferð.

Læknarnir lýsa því að þeir læri óhjákvæmilega að öðlast kaldara viðmót gagnvart sjúklingum. Auðveldara sé að hugsa um skrokk sem þurfi að meðhöndla heldur en manneskju. Að minnsta kosti einn læknir lýsti áhyggjum sínum af því að það geti latt lækna til þess að beita sér af öllum krafti fyrir sjúklinga sem megi hugsanlega bjarga og varpa frá sér ábyrgðinni á vissan hátt með því að skrifað sé upp á að ekki eigi að endurlífga sjúkling. Á ákveðinn hátt nýtist slík meðferð sem kennslutæki þar sem læknar læri aðferðir sem geta nýst þegar þeir meðhöndla aðra sjúklinga. Það sé þó siðferðislega vafasamt að meðhöndla dauðvona fólk á þann hátt.

Á tveimur spítalanna voru til staðar ferli sem formlega áttu að vinna gegn ónauðsynlegri meðferð. Starfsmenn spítalanna virtust þó almennt ekki þekkja reglur spítalanna heldur virtust læra að vinna samkvæmt ríkjandi menningu á spítalanum varðandi meðferð dauðvona sjúklinga og hvað væri ónauðsynleg meðferð.

Sumir spítalar reyna að vinna skipulagt með tilfinningar lækna og heilbrigðisstarfsfólks. Á einum spítalanum í rannsókninni eru haldnir svokallaðir dauðafundir þar sem læknar fá opinn vettvang til þess að tjá sig um þau tilfelli þar sem sjúklingar þeirra látast.

Greinin í heild eins og hún birtist í Journal of General Internal Medicine

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert