Jörðin gæti orðið dauð veröld

Jörðin er eini staðurinn sem menn vita með vissu að …
Jörðin er eini staðurinn sem menn vita með vissu að hýsir líf. Lífhvolfi hennar er hins vegar ógnað af hröðum breytingum á loftslagi. AFP

Rannsóknir Williams Borucki, aðalvísindamanns Kepler-sjónaukans, á fjarreikistjörnum í Vetrarbrautinni leiddu huga hans aftur að jörðinni og lífinu á henni. Hann óttast að jörðin gæti orðið að enn annarri dauðri veröld í alheiminum ef menn vernda ekki lífhvolf hennar fyrir loftslagsbreytingum.

Borucki, sem er 76 ára gamall, lét af störfum í sumar við Kepler-sjónaukann sem hefur fundið fleiri en þúsund reikistjörnur á braut um fjarlægar stjörnur frá árinu 2009. Hann vann áður við Apollo-áætlun bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og hlaut hin eftirsóttu Shaw-verðlaun í stjörnufræði í síðasta mánuði. Borucki ætlar að gefa 100.000 dollara af verðlaunafénu sem hann fékk til samtaka vísindamanna til að vinna að loftslagsmálum.

„Jörðin er mjög sérstakur staður. Ef við höfum ekki visku og tæknina til þess að vernda lífhvolfið okkar gæti hún orðið eins og margir aðrir dauðir heimar,“ sagði Borucki í viðtali við Huffington Post nýlega.

Marga milljarða reikistjarna hljóti að vera að finna í svonefndu lífvænlegu belti stjarna í alheiminum, að mati Borucki. Á einhverjum fjölda þeirra hljóti líf að hafa kviknað og þróast þannig að það væri fært um samskipti. Samt hafi engin merki fundist um vitrænt líf í alheiminum ennþá. Hann spyr sig hvort að ástæðan geti verið sú að aðrar siðmenningar hafi ekki áttað sig á mikilvægi þess að viðhalda hagstæðu loftslagi.

„Það gefur okkur viðvörun um að við þurfum að hugsa virkilega vel um hvernig við verndum lífhvolfið okkar, hvernig við verndum loftslagið okkar. Það þyrfti ekki miklar breytingar til þess að gera plánetuna ólífvænlega fyrir okkur,“ sagði Borucki.

Hann telur þó að þegar mannkynið geri sér fyllilega grein fyrir hættunni sem felst í loftslagsbreytingum muni það sameinast og sigrast á vandanum. Það þurfi hins vegar að viðurkenna vandann og helga sig lausnunum því hann sé ærinn.

Viðtal Huffington Post við William Borucki

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert