Súrt hlutskipti átu í Suðuríshafi

Rauðáta er ein algengasta átutegundin í Norðuríshafinu. Myndin tengist efni …
Rauðáta er ein algengasta átutegundin í Norðuríshafinu. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Af vef Hafrannsóknastofnunar

Átustofninn í Suðuríshafi gæti dregist saman um allt frá 20% til 70% fyrir árið 2100 ef menn draga ekki úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum og tegundin gæti jafnvel ekki þrifist þar árið 2300 vegna súrnunar sjávar. Þetta er mat vísindamanns sem hefur rannsakað átuna í aldarfjórðung.

Nær allar sjávartegundir í Suðuríshafi reiða sig beint eða óbeint á átuna sem er hornsteinn fæðukeðjunnar þar. Hnigni átustofninum hefur það mikil áhrif á aðrar dýrategundir eins og smokkfiska, hvali, seli, fiska, mörgæsir og sjófugla, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times.

Vaxandi styrkur koltvísýrings í lofthjúpi og höfum jarðar vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum með bruna á jarðefnaeldsneyti hefur bein áhrif á átuna og önnur krabbadýr sem mynda skeljar. Súrnun sjávar torveldar dýrunum að mynda skeljar og ytri stoðkerfi sín.

So Kawaguchi, líffræðingur hjá Suðurskautsdeild ástralskra stjórnvalda, sem hefur rannsakað átuna í 25 ár hefur mikla áhyggjur af því hvernig loftslagsbreytingarnar muni draga úr getu átunnar til þess að fjölga sér næstu hundrað árin.

„Hærri styrkur koltvísýrings í sjónum þýðir að hafið súrnar meira. Þetta truflar lífeðlisfræði átunnar. Það kemur í veg fyrir að eggin klekist út og að lirfurnar vaxi,“ segir Kawaguchi.

Á rannsóknarstofu sinni hefur Kawaguchi dælt koltvísýringi í krukkur með átu til þess að líkja eftir þeim aðstæðum sem fyrirséð að geti orðið í Suðuríshafinu á næstu áratugum og öldum.

„Ef við höldum áfram eins og ekkert hafi í skorist og við grípum ekki til aðgerða til þess að draga úr losun kolefnis þá gæti átustofninn í Suðuríshafinu dregist saman um 20% til 70% fyrir árið 2100. Fyrir 2300 gæti Suðuríshafið ekki verið hentugt fyrir átuna til að fjölga sér í,“ segir líffræðingurinn.

Undanfarin ár hafa hundruð þúsunda tonna af átu verið veidd í Suðuríshafinu á ári. Ýmis náttúruverndarsamtök vilja nú friða hluta af hafinu þar til vísindamenn hafa gert sér betri hugmynd um vistkerfi sjávartegunda í því.

Umfjöllun New York Times um rannsóknir Kawaguchi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert