Gatið á ósonlaginu stærra í ár

Myndin sýnir styrk ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu 2. október 2015.
Myndin sýnir styrk ósonlagsins yfir Suðurskautslandinu 2. október 2015. NASA/Goddard Space Flight Center

Óvenjukaldar aðstæður og lítil hreyfing á heiðhvolfi jarðarinnar hafa haft þau áhrif að gatið í ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu var stærra og myndaðist seinna en undanfarin ár, að sögn vísindamanna bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA og haf- og loftslagsstofnunarinnar NOAA.

Gatið náði hámarki 2. október og náði þá yfir 28,2 milljón ferkílómetra svæði sem er stærra en öll Norður-Ameríka, að því er kemur fram í frétt á vef NASA. Mörg dagbundin stærðarmet voru slegin í mánuðinum en gatið var áfram stórt. Borið saman við tímabilið 1991 til 2014 var gatið það fjórða stærsta að meðaltali í ár.

Menn urðu fyrst varir við að gat myndaðist á ósonlag jarðar á 9. áratug síðustu aldar. Gatið yfir Suðurskautslandinu myndast og stækkar á vorin, frá ágúst til september, vegna mikils magns klórs og bróms í heiðhvolfinu en efnin kom fyrst og fremst frá efnanotkun manna á árum áður.

Losun á efnum sem skaða ósonlagið var takmörkuð mjög með Montreal-sáttmálanum árið 1987 eftir að þjóðir heims gerðu sér grein fyrir hættunni. Styrkur efnanna í lofthjúpnum er smátt og smátt að dvína og er gert ráð fyrir að ósonlagið verði aftur komið í það horf sem það var í árið 1980 í kringum árið 2070.

Ósonlagið skýlir jörðinni fyrir skaðlegum útfjólubláum geislum sólarinnar sem geta valdið húðkrabbameini, gláku, bælt ónæmiskerfi fólks og skaðað plöntur. Stofnanirnar segja að gatið í ár þýði að líklega verði meira af slíkri geislun við yfirborð jarðar næstu mánuði, sérstaklega á Suðurskautslandinu og suðuhveli jarðar.

Frétt á vef NASA um stærð gatsins á ósonlaginu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert