Helmingur antilópanna horfinn

Saiga-antilópan hefur verið talin í útrýmingarhættu en góður árangur hafði …
Saiga-antilópan hefur verið talin í útrýmingarhættu en góður árangur hafði náðst í endurreisn tegundarinnar. Af Wikipedia

Dularfullur fjöldadauði antilópa af tegundinni saiga í Kasakstan í vor var enn verri en í fyrstu var talið. Nú segja vísindamenn að meira en helmingur tegundarinnar hafi drepist á innan við mánuði. Tegundin var fyrir í bráðri útrýmingarhættu.

„Ég hef unnið við sjúkdóma í villtum dýrum alla ævi og ég taldi mig hafa séð ýmislegt viðbjóðslegt. Þetta slær öllu út,“ hefur New York Times eftir Richard A. Kock frá Konunglega dýralæknaskólanum í London.

Hann og fleiri vísindamenn hafa nú leitt líkur að því að loftslagsbreytingar og stormasamt veðurfar síðasta vor hafi valdið breytingum á áður skaðlausum bakteríum sem lifa í antilópunum í banvæna skaðvalda. Það veldur vísindamönnunum verulegum áhyggjum því ef veðurfarsbreytingarnar sem valda dauðanum eru nógu afgerandi gæti tegundin öll þurrkast út á einu ári.

Í fyrstu var talið að um 120.000 dýr hefðu drepist en við athuganir úr lofti í sumar fundu vísindamenn mun færri antilópur en þeir áttu von á. Þeir telja nú að í það minnsta 211.000 dýr hafi fallið.

Veðurfar var óvenjulega stormasamt á búsvæðum dýranna í maí í samanburði við undanfarin ár. Hitastigið féll skyndilega og naprir vindar hvinu. Rannsóknir á öðrum beitardýrum sýna að skyndilegar veðurfarsbreytingar geta veikt ónæmiskerfi dýranna. Þannig hefði tíðarfarið geta valdið því að bakteríurnar bæru ónæmiskerfi þeirra ofurliði.

Tímasetningin gæti einnig hafa gert illt verra. Antilópurnar voru nýlega búnar að missa vetrarfeldinn fyrir heitt sumarið. Þær átu nývaxið gras og þurftu orku til að brjóta það niður eins hratt og mögulegt var. Þá voru kvendýrin að bera og annast kálfa.

Vísindamenn rannsaka nú hvort að fyrri fjöldadauði tegundarinnar hafi átt sér samskonar aðdraganda hvað varðar veðurfarssveiflur.

Frétt New York Times af antilópudauðanum

Fyrri frétt mbl.is: Antilópur deyja á dularfullan hátt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert