Marsneskt loft á hverfanda hveli

Teikning listamanns af sólstormi sem sverfur burt jónir úr efri …
Teikning listamanns af sólstormi sem sverfur burt jónir úr efri lögum lofthjúps Mars. NASA/GSFC

Vindar frá sólinni þegar hún var yngri og virkari virðast hafa feykt burt meginhluta lofthjúps Mars sem varð þess valdandi að fljótandi vatn á yfirborðinu gufaði upp eða fraus. Mælingar sem MAVEN-brautarfar NASA hefur gert á reikistjörnunni sýna að það gengur hraðar á lofthjúpinn þegar sólvirkni er mikil.

Rannsóknir manna á Mars undanfarna áratugi hafa leitt í ljósi ótvíræðar vísbendingar um að fljótandi vatn hafi runnið um yfirborð rauðu reikistjörnunnar í umtalsverðu magn fyrr í sögu hennar. Það þýðir að loftslags Mars hlýtur að hafa verið hlýrra og rakara áður fyrr og lofthjúpurinn þykkari. Í dag er Mars hins vegar köld og þurr eyðimörk með næfurþunnan lofthjúp sem er aðallega úr koltvísýringi.

Sólstormar ollu líklega loftslagsbreytingunum

Vísindamenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA kynntu niðurstöður rannsókna sem þeir hafa gert með MAVEN-geimfarinu á lofthjúpnum og hvernig hann tapast smám saman út í geiminn í gær. Mælitæki geimfarsins sýna að um 100 grömm af lofthjúpnum hverfa á hverri sekúndu. Þessi „uppblástur“ marsneska andrúmsloftsins gengur hraðar fyrir sig þegar virkni sólar er mikil.

„Við höfum séð að veðrun andrúmsloftsins eykst verulega þegar sólstormar geisa þannig að við höldum að tapið hafi verið mun meira fyrir milljörðum ára þegar sólin var yngri og virkari,“ segir Bruce Jakosky, aðalvísindamaður MAVEN við Colorado-háskóla í Boulder.

Sólstormar hafi þannig líklega verið ráðandi þáttur í þeim loftslagsbreytingum sem Mars hefur gengið í gegnum. Vindarnir virðast hafa sorfið burt stærstan hluta lofthjúpsins fyrir um 3,7 milljörðum ára, þegar sólkerfið var um milljarðs ára gamalt. Í bernsku sinni voru vindar sólarinnar sterkari og tíðari auk þess sem útfjólublá útgeislun hennar var öflugri þá.

Sólvindar eru straumur hlaðinna agna sem sólin sendir frá sér á miklum hraða. Þessar agnir örva meðal annars lofthjúp jarðar og mynda segulljósin sem Íslendingar þekkja sem norðurljós. Önnur rannsókn sem greint var frá í gær að segulljós sé einnig að finna á Mars.

Á Mars varð rafsviðið sem sólvindurinn myndaði þegar hann blés fram hjá reikistjörnunni hins vegar til þess að skjóta hlöðnum gasatómum, svonefndum jónum, í efri lögum lofthjúpsins út í geiminn. Þessi veðrun virðist hafa þynnt lofthjúp Mars þannig að hann gat ekki lengur staðið undir fljótandi vatni á yfirborðinu.

Brautfarfarið MAVEN hefur rannsakað hvarf vatns og lofthjúps á Mars.
Brautfarfarið MAVEN hefur rannsakað hvarf vatns og lofthjúps á Mars. NASA

Útilokar ekki að líf hafi náð að kvikna 

Þrátt fyrir þetta segir Jakosky ekki útilokað að líf hafi getað kviknað á Mars. Á jörðinni hafið lífið verið komið á kreik þegar fyrir um 3,8 milljörðum ára. Nýlegar rannsóknir bendi til þess að örverulífi gæti jafnvel hafa kviknað enn fyrir, fyrir um 4,1 milljarði ára.

„Mars virðist hafa haft mildara umhverfi í eins langan tíma og það tók lífið á jörðinni að myndast. Það segir okkur ekki að líf hafi myndast á Mars en það þýðir að það sé mjög raunhæft. Það er að minnsta kosti ekki heimskuleg spurning að spyrja,“ sagði hann.

Ástæðan fyrir því að lofthjúpur Mars hvarf en jörðin heldur sínum enn þann dag í dag er sú að segulsvið, sem verndar lofhjúpinn fyrir hlöðnum ögnum sólvindsins, hvarf á einhverjum tímapunkti á Mars. Enn er ekki vitað með vissu nákvæmlega hvers vegna segulsviðið hvarf en stærðarmunurinn á Mars og jörðinni er talinn skýra hvers vegna jörðin hefur enn sitt svið.

Eftir að segulsviðið hvarf, gekk hratt á lofthjúps Mars, að sögn Jakosky.

Frétt á vef NASA um rannsóknir MAVEN

Frétt um rannsóknirnar á Space.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert