Ísland í ellefta sæti af 30

AFP

Ísland  er í 11. sæti af 30 Evrópulöndum hvað varðar útgjöld til rannsókna og þróunar sem hlutfall af landsframleiðslu.

Í september birti Hagstofan niðurstöður um útgjöld til rannsókna og þróunar á Íslandi fyrir árið 2014, en þau jafngiltu 1,89% af vergri landsframleiðslu (VLF).

Þau lönd sem eru næst Íslandi á lista Eurostat, hagstofu Evrópu, eru Bretland, þar sem útgjöld til rannsókna og þróunar eru 1,72% af VLF, og Holland, þar sem útgjöldin eru 1,97%. Þau þrjú lönd sem verja mestu til rannsókna og þróunar eru Finnland, Svíþjóð og Danmörk, en það eru jafnframt einu löndin á listanum þar sem hlutfallið fer yfir þrjú prósent.

Í Noregi er hlutfallið 1,71%, sem er nálægt hlutfalli útgjalda á Íslandi og í Bretlandi. Hluti af markmiðum Evrópusambandsins fyrir árið 2020 er að útgjöld til rannsókna og þróunar nái þremur prósentum innan sambandsins, en meðaltalið árið 2014 var 2.03%.

Útgjöldin koma úr fyrirtækjum, háskólastofnunum, öðrum opinberum stofnunum og sjálfseignarstofnunum, og er hver þessara eininga greind sérstaklega.

Ef litið er á hlutfall útgjalda rannsókna hjá háskólastofnunum kemur í ljós að Ísland er á meðal fimm efstu ríkjanna, með 0,67% af VLF, en fyrir ofan Ísland á listanum eru Austurríki og Finnland (0,73%), Svíþjóð (0,92%) og Danmörk (1,03%).

Ef litið er á útgjöld opinberra stofnana til rannsókna og þróunar er Ísland neðarlega á listanum, með 0,12% af VLF, en hlutfallið er sambærilegt í Svíþjóð, Bretlandi og Austurríki. Ef eingöngu er litið á útgjöld fyrirtækja til rannsókna og þróunar er Ísland í þrettánda sæti listans, með 1,07% af VLF. Þá eru bæði Bretland og Holland með 1,11% af VLF, Tékkland með 1,12% og Írland með 1,14%.

Sjá nánar á vef Hagstofu Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert