Sýndarveruleikinn tekur völdin hjá CCP

Skjáskot úr Gunjack leiknum.
Skjáskot úr Gunjack leiknum. Mynd/CCP

Tölvuleikjaframleiðandinn CCP gefur í dag út sinn fyrsta leik á sviði sýndarveruleika (e: Virtual reality, VR).

Gunjack kemur út fyrir Samsung Gear VR  búnaðinn sem hannaður er fyrir Samsung farsíma og er skotleikur sem gerist í EVE heiminum. Leikurinn er sérstaklega hannaður fyrir sýndarveruleika, segir í fréttatilkynningu.

„Markmið okkar með Gunjack var að sýna fram á það besta sem Gear VR tæknin hefur upp á að bjóða. Við þróun leiksins reyndum við að nýta þessa nýju tækni til hins ýtrasta þannig að spilari leiksins fari í annan heim þegar hann setur á sig Gear VR búnaðinn, og við vonum að þeir sem spili Gunjack hafi jafn gaman af því að spila leikinn og við höfðum að því að gera hann,“ er haft eftir Jean-Charles Gaudechon, framleiðslustjóra Gunjack í fréttatilkynningu frá CCP.

Gunjack byrjaði sem prufuverkefni og fyrst leit dagsins ljós á EVE Fanfest hátíðinni í Reykjavík í mars síðastliðnum undir heitinu Project Nemesis. „Í kjölfar góðra viðbragða gesta og blaðamanna þar var ákveðið að halda áfram með þróun verkefnisins og var formlega tilkynnt um útgáfu hans sem tölvuleiks á Gamescom ráðstefnunni í sumar,“ segir enn fremur í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert