Hvað gerist þegar þú ferð út í geim?

Sjálfsmynd sem Scott Kelly tók í geimgöngu sinni utan við …
Sjálfsmynd sem Scott Kelly tók í geimgöngu sinni utan við Alþjóðlegu geimstöðina í lok október. AFP

Geimfarinn Scott Kelly er sá Bandaríkjamaður sem hefur varið mestum tíma í geimnum en hann dvelur nú í Alþjóðlegu geimstöðinni í heilt ár. Hann deildi nýlega reynslu sinni með fólki á jörðu niðri á Twitter-síðu sinni og sagði frá því hvað gerist þegar maður er úti í geimnum.

Ýmsar spurningar brunnu á vörum fylgjenda Kelly á Twitter, meðal annars um hvernig geimfarar fara í sturtu (þeir þrífa sig með blautum klút), hvernig þeir þvo þvott (þeir henda fötunum) og hvernig þeir fá hreint vatn (þeir endurvinna eigið þvag).

Svefn í geimnum er eitthvað sem Kelly þurfti að venjast hann geimfarar sofa í svefnpokum sem eru tjóðraðir fastir svo þeir svífi ekki í burtu í nær þyngdarleysi geimstöðvarinnar. Kelly segir nokkuð erfitt að sofa í geimnum en það venjist. Hann sakni hins vegar að finna þyngd sængurinnar.

Spurður að því hver sé skrýtnasta tilfinning við að búa í geimnum fyrir utan þyngdarleysið er Kelly ekki í neinum vafa.

„Að vakna um miðja nótt og vita ekki hvað snýr upp,“ segir hann.

Yfirleitt dvelja geimfarar aðeins í geimstöðinni í 4-6 mánuði í einu. Leiðangri Kelly sem stendur yfir í ár er ætlað að rannsaka hvaða áhrif svo langar geimferðir hafa á menn. Með því vonast vísindamenn til þess að skilja betur hvernig líkaminn bregst við og aðlagast aðstæðum. Á meðan á dvölinni stendur taka Kelly og tvíburabróðir hans Mark á jörðu niðri þátt í samanburðarerfðafræðirannsókn. 

Svör Kelly við spurning um líf í geimnum á Tumblr-síðu NASA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert