NASA ekki tilbúin í lengri ferðir

Bandaríski geimfarinn Tim Kopra við æfingar. Geimfarar sem færu til …
Bandaríski geimfarinn Tim Kopra við æfingar. Geimfarar sem færu til Mars gætu þurft að sætta sig við meiri heilsufarslega áhættu en forverar þeirra sem fara í styttri ferðir. AFP

Geimfarar sem fara til Mars þurfa að sætta sig við meiri áhættu fyrir heilsu sína og öryggi en tunglfararnir og aðrir geimfarar vegna þess að NASA hefur enn ekki þróað leiðir til að vega upp á móti hættum við lengri geimferðir. Áætlanir stofnunarinnar um það eru of bjartsýnar að mati eftirlitsmanns NASA. 

Metnaður bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA stendur til þess að senda menn til nágrannareikistjörnunnar Mars á 4. áratug þessarar aldar. Ýmsar hættur er hins vegar fólgnar í lengri geimferðum fyrir ferðalangana, þar á meðal ófullnægjandi matur, hættuleg geislun og aukin hætta á krabbameinum og öðrum heilsukvillum.

Í skýrslu Paul K. Martin, yfireftirlitsmanns með rekstri NASA, kemur fram það álit að stofnunin sé hreinlega ekki tilbúin í lengri geimferðir. Áætlanir hennar um hvernig takmarka eigi áhættu geimfaranna sé of bjartsýn, jafnvel þó að NASA hafi vissulega tekið jákvæð skref í átt að því að taka á heilsufari og frammistöðu geimfara í geimferðum.

„Langir geimleiðangrar munu að líkindum valda áhöfnunum áhættu hvað varðar heilsu þeirra og frammistöðu sem NASA hefur takmarkaða getu til að draga úr á skilvirkan hátt. Í samræmi við það gætu þeir geimfarar sem verða valdir til að fara að minnsta kosti fyrstu ferðirnar lengra út í geim að sætta sig við meiri áhættu en þeir sem fara í leiðangra til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar,“ skrifar Martin í skýrslu sinni.

Geimferðir í eðli sínu hættulegar

Á meðal þess sem getur ógnað geimförum í löngum leiðangri eins og til Mars er þyngdarleysi sem getur haft áhrif á þéttleika beina og rýrt vöðva manna. Geimgeislun getur einnig aukið líkurnar á að geimfararnir fái krabbamein og hrörnunarsjúkdóma auk áhrifa á miðtaugakerfið.

Grundvallaratriði eins og næring gæti orðið meiriháttar vandamál þar sem Marsferja yrði í öllum tilfellum mun minni en Alþjóðlega geimstöðin og ekki væri hægt að senda geimförunum reglulegar birgðir eins og sendar eru til hennar.

„Geimferðir eru hættulegt athæfi í eðli sínu. Fyrir utan gríðarlegar verkfræðilegar áskoranir við að skjóta geimförum á loft og koma þeim örugglega aftur til jarðar upplifa menn sem búa í geimnum ýmsar líkamlegar breytingar sem geta haft áhrif á getu þeir til að uppfylla nauðsynleg verk leiðangursins,“ segir í skýrslunni.

Frétt Washington Post af skýrslu eftirlitsmanns NASA

Buzz Aldrin, annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið, …
Buzz Aldrin, annar maðurinn til að stíga fæti á tunglið, í bol sem hvetur NASA til að koma mönnum til Mars. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert